Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýndi harðlega forsætisráðherra í ræðu á Alþingi og lýsti yfir miklum áhyggjum af nýlegri skipan í stjórnir ríkisfyrirtækja. Hann velti því upp hvort ríkisstjórnin væri að víkja frá eigin stefnu um gegnsæi og fagmennsku í stjórnarkjörum.
„Ég verð að viðurkenna að eftir síðustu samskipti hér í óundirbúnum fyrirspurnum er ég enn meira hugsi yfir svörum forsætisráðherra heldur en ég var fyrir,“ sagði Sigurður Ingi og vísaði til þeirra breytinga sem ný ríkisstjórn hefur gert á verklagi við stjórnarskipanir.
Sigurður Ingi rifjaði upp að fyrri ríkisstjórn hefði sett fram „ágætisplan“ um að opna fyrir umsóknir og tryggja að hæfustu einstaklingarnir kæmust að. „Ekki þannig að skilja að það hafi ekki setið hæft fólk í stjórnum ríkisfyrirtækja hingað til,“ bætti hann við. „En engu að síður hefur þetta verklag nú vikið fyrir kerfi sem einkennist af einsleitni og takmörkuðum samfélagslegum þverskurði.“
Sérstaklega gagnrýndi hann að fulltrúar af landsbyggðinni væru nær alfarið undanskildir í nýrri skipan. „Það var næstum því forskrift,“ sagði hann. „Þó að ríkisfyrirtækin mörg hver starfi fyrst og fremst úti á landsbyggðinni […] þá virtist meginlínan vera að velja einsleita menn.“
Þá lýsti hann furðu á því að ráðherra hefði skipað eingöngu flokksmenn í stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. „Það var ekki gert í síðustu stjórn HMS,“ sagði hann. „Þar var tekið tillit til ólíkra sjónarmiða ólíkra flokka.“
Að lokum beindi Sigurður Ingi spurningu að forsætisráðherra:
„Var þetta planið, að gera eitt í dag og annað á morgun og undanskilja algerlega landsbyggðina?“