Categories
Fréttir

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Deila grein

13/03/2025

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fór yfir í störfum þingsins, hver staðan í Reykjavík væri við að tryggja öllum börnum leikskólapláss, en hundruð foreldra bíða nú eftir slíku fyrir börnin sín. „Að tryggja öllum börnum leikskólapláss er mikilvægt verkefni sveitarfélaga. Þau varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna.“

Framsókn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi. Hugmyndin er að greiðslurnar séu bundnar við virka umsókn og falli niður strax og barnið fær úthlutað rými. Meirihluti borgarstjórnar hafnaði þessari tillögu.

„Heimgreiðslur geta dregið úr fjárhagslegu álagi á fjölskyldur sem standa frammi fyrir bili milli fæðingarorlofs og leikskólavistar. Sveitarfélög ættu að nýta sér þetta tímabundna úrræði samhliða því að fjölga leikskólaplássum með samvinnu við atvinnulífið og fjölbreyttari rekstrarformum,“ sagði Ingibjörg.

„Við í Framsókn viljum styðja við fjölskyldur með raunhæfum úrræðum sem bæta lífsgæði barna og foreldra.“

Ingibjörg kallaði eftir viðbrögðum Kolbrúnar Baldursdóttur, alþingismanns, frá Flokki fólksins, varðandi viðhorf til heimgreiðslna og hugsanlegra annarra lausna, svo sem lengingar fæðingarorlofs eða leikskóla rekna af fyrirtækjum eins og Alvotech hefur boðið fram.

„Hver er þín sýn á heimgreiðslur til foreldra? Styður þú rök meiri hluta borgarstjórnar um að þetta sé óraunhæft úrræði eða telur þú að slíkar greiðslur geti skipt sköpum fyrir fjölskyldur í erfiðri stöðu? Styður þú lengingu fæðingarorlofs sem lausn til að draga úr þessu bili sem myndast á milli fæðingarorlofs og leikskóla? Og hvað finnst þér varðandi annað rekstrarform leikskóla eins og Alvotech var reiðubúið í?,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Störf þingsins – Ingibjörg Isaksen: