Framlög til verkefnasjóða og styrkja á sviði menningar, að meðtöldum launasjóðum listamanna, munu nema um 3,3 milljörðum króna á fjárlögum næsta árs. Til samanburðar námu framlög til þeirra um 1,9 milljarði árið 2017. Nemur hækkunin um 72%. Fóru framlögin mest í 3,9 milljarða árið 2020 vegna tímabundins framlags í máltækniverkefni fyrir íslensku í stafrænum heimi sem áætlað er að klárist á næsta ári.
„Menning og listir eru uppspretta öflugs samfélags en undanfarin ár höfum við markvisst unnið að sterkari umgjörð í þeim málaflokkum með góðum árangri. Á næsta ári munum við halda áfram á sömu braut en menningarmálin munu meðal annars fá nýtt heimili í nýju ráðuneyti, ný myndlistastefna fyrir Ísland verður kynnt, vinna við nýja tónlistarstefnu hefjast og ný sviðlistamiðstöð hefja starfsemi sína. Fjárframlög til sjóða á sviði menningar halda áfram að vaxa sem mun ótvírætt skila sér til baka til samfélagsins. Aukningin er í takt við stjórnarsáttmálann, þar sem tekið er skýrt fram að við ætlum að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs. Heimsfaraldurinn hefur haft óhjákvæmilegar afleiðingar fyrir menninguna okkar, en við ætlum að halda áfram að hlúa að henni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.
Á næsta ári mun aukning til Myndlistasjóðs nema 43,2 m.kr, til sjóðs vegna starfsemi atvinnuleikhópa 42,5 m.kr og aukning til tónlistarsjóða nema 18 m.kr. Þá verður 100 m.kr varið til hækkunar á starfslaunum listamanna.