Categories
Fréttir

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Deila grein

31/01/2020

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000-2019 var til umræðu á Alþingi í gær. Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði að þó sveiflur í stærð loðnustofnsins séu þekktar, þá hafi það ekki gerst áður að tvær vertíðir í röð bregðist og veiði ekki heimiluð. Íslendingar hafa veitt loðnu við strendur landsins frá árinu 1963. „Hafrannsóknastofnun gefur út heimild til veiða og hefur byggt á því árlega að skilin séu eftir um 350.000–400.000 tonn af kynþroska loðnu á hverri vertíð en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar væru heimilaðar og því var ekki gefinn út neinn kvóti þá vertíðina,“ sagði Ásgerður.

„Eins og sjá má af gögnum skýrslunnar hefur göngumynstur loðnunnar breyst. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar sjávar með hærri yfirborðshita og breyttum skilum kaldari strauma úr norðri og hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á því svæði. Er breytt göngumynstur loðnunnar að hluta til rakið til þessara breytinga á hita sjávar og strauma.“

„Ég vil taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að mikilvægt er að auka rannsóknir á þeim breytingum sem hafa orðið í hafinu og áhrifum þeirra á nytjastofna við landið. Ég vil spyrja ráðherra hvort beitt hafi verið fjarkönnun í haf- og loðnurannsóknum eða hvort það sé til skoðunar. Í skýrslunni kemur fram það álit Hafrannsóknastofnunar að í ljósi þess hve loðnan er skammlíf tegund og miklar sveiflur í stærð stofnsins sé ógjörningur að spá fram í tímann um þróun hans. Miðað við breytingarnar sem hafa verið síðustu ár er í mínum huga talsvert erfitt að vera bjartsýnn á styrkingu stofnsins. Í skýrslunni kemur fram það mat Hafrannsóknastofnunar að horfur fyrir næstu vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Mælingar á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefa ekki miklar vonir en vísitalan sem mældist 10,8 milljarðar er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Ekki var óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að hún væri yfir 100 milljarðar eins og sýnt er á mynd í skýrslunni.

Auk þess sem loðna er með verðmætustu nytjategundum hér við landið er hún einnig mikilvæg fæðutegund annarra lífvera, svo sem fiska, hvala og fugla. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir áhrifum þess á stærð stofnsins og hefur verið farið mjög vel yfir það í þessari umræðu.

Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild en hvaða áhrif hefur hann á þau samfélög þar sem uppsjávarveiði er hvað mest? Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fékk RR ráðgjöf til þess að greina áhrif loðnubrestsins á sveitarfélögin. Sú greining kom út í júlí 2019 og byggir á gögnum sem samtökin öfluðu hjá sveitarfélögunum Fjarðabyggð, Langanesbyggð, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Markmið þessarar greiningar var að meta bein áhrif loðnubrestsins á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna. Þá er litið til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Í greiningu RR ráðgjafar kemur fram, með leyfi forseta:

„Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætlaðar rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019, eða bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa. Slíkt tekjutap hefur mikil áhrif á rekstur sveitarfélaganna og dregur úr möguleikum þeirra til að veita lögbundna þjónustu við íbúa sína. Áhrifin koma misjafnlega niður og harðast á þeim sveitarfélögum sem búa við einhæft atvinnulíf. Tækifæri þeirra sveitarfélaga til að afla annarra tekna til að vega á móti tapinu eru takmörkuð og fá tækifæri fyrir íbúa til að finna aðra atvinnu við hæfi.“

Það eru fordæmi fyrir því að fram komi mótvægisaðgerðir þegar aflabrestur verður með þessum hætti og ætti það ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem byggja atvinnulíf sitt á uppsjávarveiðum og -vinnslu. Einnig er vert að benda á að samhliða þessum loðnubresti hefur verið mikil niðursveifla í sumargoti síldar vegna þeirrar sýkinga sem hún er að ganga í gegnum. Sá tekjubrestur sem sveitarfélögin, útgerðirnar, sjómennirnir og síðast en ekki síst landverkafólkið hefur mátt þola undanfarin misseri, bæði vegna loðnubrests og síldarsýkingar, er mjög mikill. Því hvet ég ráðherra til að skoða úrlausnir til að bæta þeim samfélögum sem hafa orðið fyrir þessum óvænta tekjumissi það upp á einhvern hátt og eru mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert í gegnum tíðina á Íslandi,“ sagði Ásgerður.