Categories
Fréttir

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

Deila grein

18/11/2024

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

„Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun Ölfusárbrúar, vegum sem að henni liggja og tengdra vegaframkvæmda. Kostnaður brúarinnar er um 8,4 ma.kr, heildarkostnaður með vegum ofl er um 17,9 ma.kr. Skóflustunga verður tekin á miðvikudaginn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

„Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu lagði ég mikla áherslu á að hraða ferlinu og með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni, þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá en ný brú verður tilbúin árið 2027/2028. Þessar tafir hafa aukið á álagið við núverandi brú, þar sem umferðarhnútar og töf verða algengari. Samt sem áður eru framkvæmdir nú loks komnar á dagskrá, sem veitir von um framfarir á þessu mikilvæga samgöngumannvirki.“

Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast. Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 18. nóvember 2024

Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða.

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár, en með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki.

Verkefnið verður fjármagnað sjálfstætt með veggjöldum og mun ekki tefja önnur verkefni í samgönguáætlun. „Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum, og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi,“ segir Sigurður Ingi.

„Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.“

Þessi leið við fjármögnun þýðir að framkvæmdir við Ölfusárbrú munu ekki tefja aðrar framkvæmdir við samgönguinnviði sem fjármögnuð eru beint af ríkinu. Ölfusárbrú verður þar af leiðandi ekki fjármögnuð af samgönguáætlun. Hvalfjarðagöng eru gott dæmi um fjármögnun samgönguframkvæmda af þessu tagi.