Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega ákvörðun stjórnvalda um að loka Janusi endurhæfingu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Janus endurhæfing hefur í áraraðir veitt lífsbjargandi þjónustu fyrir ungmenni með alvarlegan og flókinn geðrænan vanda.
Ingibjörg benti á að lokun Janusar endurhæfingar skilji eftir viðkvæman hóp ungmenna í óvissu, þar sem engin sambærileg þjónusta er til staðar. Foreldrar þessara ungmenna eru í mikilli óvissu og óttast um velferð barna sinna.
„Fagfélög sem bera ábyrgð og hafa þekkingu í málinu, m.a. stjórn Geðlæknafélags Íslands, Geðhjálp, Einhverfusamtökin og fleiri, hafa sameinast um harða áskorun til ríkisstjórnarinnar að draga til baka ákvörðun um að loka Janusi,“ sagði Ingibjörg. Þau benda á að Virk starfsendurhæfingarsjóður, sem lífeyrissjóðir, stéttarfélög og aðrir aðilar sem standa að, eigi ekki að bera ábyrgð á þjónustu sem ríkinu ber að veita.
Janus endurhæfing hefur veitt einstaklingsmiðaða geðendurhæfingu fyrir ungmenni með langa sögu um geðræna erfiðleika, taugaþroskaraskanir og áfallasögu. Þjónustan hefur verið veitt af fjölbreyttum hópi fagaðila, þar á meðal geðlæknum, sálfræðingum og iðjuþjálfum. Lokun úrræðisins mun leiða til þess að þessi viðkvæmi hópur verður skilinn eftir án nauðsynlegrar aðstoðar.
Hefur verið skorað á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að axla ábyrgð og tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir þennan hóp. Ingibjörg spurði heilbrigðisráðherra hvort réttlætanlegt sé að loka lífsbjargandi úrræði án þess að sambærileg þjónusta sé tilbúin og hvort meintir samskiptaörðugleikar eigi að hafa meiri áhrif en raunverulegar þarfir ungmenna.