Categories
Fréttir

„Lykilverkefni komin í frost“

Deila grein

11/11/2025

„Lykilverkefni komin í frost“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins hvernig staðið hefur verið að málum á Suðurnesjum og á Reykjanesskaga. Hann benti á að atvinnuleysi á svæðinu sé 7,1% og sagði óvissu vegna mögulegra náttúruhamfara kalla á skýrt plan og hraðari ákvarðanir.

„Suðurnesin glíma nú við 7,1% atvinnuleysi og mestu náttúruhamfarir á lýðveldistímanum eru mögulega enn í sjónmáli,“ sagði Jóhann Friðrik og vísaði þar til þeirra viðvarana sem komið hafa frá Veðurstofu Íslands.

Jóhann Friðrik tók sérstaklega fyrir aðgerðir stjórnvalda gagnvart fyrirtækjum í Grindavík. Hann sagðist vonast til að samkeppnissjóður sem settur var á hefði jákvæð áhrif, þó hefði hann sjálfur viljað beina, sérsniðna aðstoð við hvert fyrirtæki: „Það er mín von að það veiti góðan árangur þótt ég hefði viljað fara aðra leið.“

Telur stór verkefni hafa stöðvast

Jóhann Friðrik taldi upp fjölda verkefna sem hann sagði hafa farið í „frost“: stækkun Njarðvíkurhafnar og flutning skipa Landhelgisgæslunnar, nýja heilsugæslu í Innri-Njarðvík sem þegar hefði verið boðin út, og fyrirhugaða stækkun fjölbrautaskólans fyrir verknám. „Það er allavega hægagangur þar, vonandi ekki frost,“ sagði hann um skólaframkvæmdirnar.

Gagnrýnir viðbrögð við falli Play og stöðu lögreglu

Jóhann Friðrik vísaði í ræðu sinni til þess að stór hluti þeirra 400 starfsmanna sem misstu vinnuna við „fall Play“ væri búsettur á Suðurnesjum. „Hvernig voru viðbrögðin? Engin,“ sagði hann og bætti við að mótvægisaðgerðir í ferðaþjónustu á svæðinu hefðu einnig vantað. Þá gagnrýndi hann húsnæðismál lögreglunnar: „Starfsemin er loks komin í tímabundið húsnæði, enn ein gámabyggðin … ekkert varanlegt húsnæði þar.“

Varðandi málaflokk hælisleitenda sagði hann að Suðurnes hefðu áður borið „langstærstu byrðarnar“ vegna fjölgunar, en að þróunin virtist nú horfa til betri vegar.

Beinir spurningum að ríkisstjórn

Jóhann Friðrik sagði skorta heildstæða sýn stjórnvalda á uppbyggingu og varnir á svæðinu. Hann gagnrýndi jafnframt yfirlýsta vegferð fjármálaráðherra um að stefna stærstu fyrirtækjum svæðisins vegna almannavarnaaðgerða: „… á grundvelli þess að þau hafi auðgast á áfallinu.“

Jóhann Friðrik lauk máli sínu með spurningu til ríkisstjórnarinnar: „Er staðan virkilega sú að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er algerlega búin að missa tökin á því að það er mikilvægt að sinna málum sem koma upp strax?“