,,Hæstv. forseti. Að lesa og skrifa hefur aldrei verið talið til menntunar á Íslandi, segir í Brekkukotsannál. Þar vísar skáldið bæði með kímni en einnig alvöru til þess að Íslendingar hafa frá fornu fari verið menntaþjóð á sinn hátt, sagði ágætur maður. Það má til sanns vegar færa að menntun liggur nærri kjarna þjóðarinnar og skipar æ mikilvægari sess í þjóðfélaginu. Á góðum dögum tölum við um að fjárfesting í menntun og rannsóknum skili sér margfalt til þjóðarinnar í formi nýsköpunar og framfara á sviðum atvinnulífsins. Jafnvel erum við svo brött að halda því fram að áframhaldandi fjárfestingaruppbygging í menntakerfinu jafngildi fjárfestingu í framtíðinni.
Hæstv. forseti. Þetta tel ég reyndar að sé skoðun okkar flestra. Menntunarstig íslensku þjóðarinnar er hátt. Við erum stolt af því, en við viljum gera betur. Það skýtur óneitanlega skökku við þegar menn ákveða að hunsa ráðleggingar virtra fræðimanna sem styðja mál sitt með margra áratuga reynslu og rannsóknum sem byggja á vísindalegum aðferðum. Nú er ég að vísa til orða dr. Margrétar Guðnadóttur í Morgunblaði gærdagsins. Þar talar fræðimaður með mikla reynslu af rannsóknum á veirusjúkdómum í búfé og mönnum. Hún varar alvarlega við innflutningi á kjöti og lifandi skepnum, gripum. Vill með því vernda heilsu búfjárstofna og landsmanna.
Hæstv. forseti. Sérstaða okkar felst í einangrun og hreinleika bústofna. Hér er sjúkdómastaða allt önnur en á meginlandi Evrópu og Bretlands. Íslenskir bændur voru framsýnir þegar þeir hættu að gefa sýklalyf í fóðri því að nú glíma menn víða um lönd við afleiðingar þess sem er m.a. vaxandi sýklalyfjaofnæmi. Ég tek undir orð dr. Margrétar sem finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu áfram hreinu. Sýnum nú að við erum menntaþjóð sem byggir ákvarðanir sínar á fræðilegum grunni.
Hæstv. forseti. Ég vona að við berum gæfu til að láta ekki gróðasjónarmið ráða för í þessum efnum. Verum snjallari en það.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 24. febrúar 2017.
Categories
Margréti finnst það ræfildómur
24/02/2017
Margréti finnst það ræfildómur