Categories
Fréttir

Menntakerfið er okkar fjöregg

Deila grein

14/12/2016

Menntakerfið er okkar fjöregg

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Okkur verður tíðrætt um heilbrigðismál og samgöngumál í umræðunni um fjárlög, en í þessari stuttu ræðu minni í dag langar mig til að tala um menntakerfið. Menntakerfið er okkar fjöregg og að því verðum við að hlúa betur en við höfum gert hin síðari ár. Góð menntun er lykill okkar að framtíðinni og í raun gulls ígildi. Við segjum þetta nánast daglega við börnin okkar, hvetjum þau til að gera betur í skólanum, höldum reglulega „leiðinlega“ fyrirlestra um gildi menntunar, að það skipti máli að klára eitthvert nám til að eiga betri framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. Á sama tíma getum við ekki leyft skólunum okkar að drabbast niður og kennurum að flýja starf sitt vegna lakra kjara. Við verðum að sýna í verki að góð menntun skipti okkur öll máli.

Þjóðhagslega skiptir gott menntunarstig verulegu máli og hefur jafnvel úrslitaþýðingu hvað varðar samkeppnisforskot okkar á alþjóðlegum markaði. Það er áhyggjuefni hversu illa grunnskólabörn okkar koma út úr mælingum. Þau dragast aftur úr jafnöldrum sínum í samanburðarlöndum. Ég vil þó nota tækifærið hér til að óska grunnskólum Reykjanesbæjar sérstaklega til hamingju með miklar framfarir í samræmdum prófum. Þann góða árangur má þakka samræmdu átaki heimila og skóla í Reykjanesbæ, þannig að góðir hlutir eru nú líka að gerast í skólakerfinu.

En góðir skólar verða ekki til án góðra kennara. Kjarabarátta grunnskólakennara er einnig á erfiðum stað og ekki fyrirséð hvar hún endar. Í því samhengi verðum við að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki fært stóra og dýra málaflokka yfir til sveitarfélaga, eins og grunnskóla og málefni fatlaðra, án þess að endurskoðun á tekjuskiptingu fari fram á sama tíma. Þar höfum við ekki staðið okkur.”

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 13. desember 2016.