,,Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var unnið að kerfisbreytingu er varðar kjör eldri borgara. Í þeirri kerfisbreytingu var krónu á móti krónu skerðingu hætt og mismunandi flokkar ellilífeyris sameinaðir. Markmið þeirrar kerfisbreytingar var að einfalda almannatryggingakerfið og bæta kjör aldraðra. Í þeim kerfisbreytingum var sérstaklega horft til þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Samkvæmt athugun ráðuneytisins á afleiðingum kerfisbreytinganna kemur fram að flestallir eldri borgarar hækkuðu í launum við breytingarnar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var hækkunin á bilinu 10–24% um síðustu áramót.
Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Það kemur hins vegar fram í athugun ráðuneytisins að tvær hæstu tekjutíundirnar lækkuðu við þessar kerfisbreytingar. Þar er um að ræða hópa sem hafa um 470 þúsund og hærra í önnur laun. Á síðasta kjörtímabili náðum við ekki sama árangri hvað varðar kjör öryrkja og er það miður. Ekki náðist mikilvæg sátt um kerfisbreytingar, en halda þarf áfram í samvinnu milli Öryrkjabandalagsins og ráðuneytisins og finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Heildaraukning til málaflokksins á síðasta kjörtímabili, á þremur og hálfu ári, voru rúmir 40 milljarðar. Það er hins vegar umhugsunarefni að samkvæmt ríkisfjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar til næstu fimm ára er heildaraukning til málefna aldraðra og öryrkja tæpir 26 milljarðar. Þarna er mismunurinn rúmir 14 milljarðar, en inni í því eru áætlaðar kerfisbreytingar vegna málefna öryrkja upp á 2,7 milljarða. Samkvæmt útreikningum vegna kerfisbreytinganna á síðasta kjörtímabili var áætlað að kerfisbreytingin væri upp á tæpa 5 milljarða. Hér vantar talsvert upp á.
Eflaust hefðum við mátt gera betur í þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili. Eins og áður segir fóru rúmir 40 milljarðar til málaflokksins á þremur og hálfu (Forseti hringir.) ári, en núna á fimm ára tímabili til næstu fimm ára eru það 26 milljarðar. Það er verulega umhugsunarvert.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins, 30. maí 2017
Categories
Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar
30/05/2017
Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar