Categories
Fréttir

Netárás getur lamað samfélagið á augabragði

Deila grein

02/05/2025

Netárás getur lamað samfélagið á augabragði

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins afleiðingar umfangsmikils rafmagnsleysis á Spáni og í Portúgal, þar sem samfélög urðu fyrir alvarlegum truflunum – símalaus, netlaus og með almenningssamgöngur í ólestri.

„Ég þekki vel úr mínum fyrri störfum sem orkumálastjóri að kerfið okkar, með aukinni sjálfvirkni og snjallmælavæðingu, er að verða viðkvæmara fyrir slíkum árásum. Strangt til tekið má með slíkum árásum slökkva á hverfum, bæjarhlutum eða -félögum, jafnvel stórum parti landsins, og það má líka ráðast á lykilinnviði eins og flug,“ sagði Halla Hrund. Þó að bilunin ytra hafi ekki stafað af netárás, undirstrikar atvikið hvernig sambærileg áhrif gætu orðið hérlendis með alvarlegum afleiðingum.

Viðbúnaður þarf að vera raunhæfur – og fjármagnaður

Þrátt fyrir að ýmis jákvæð skref hafi verið stigin – svo sem samvinna Samorku, KraftCERT og almannavarna – segir Halla Hrund að núverandi viðbragðsáætlun dugi skammt. Hún tekur sérstaklega fram að:

  • Raunhæfar viðbragðsáætlanir: Þær þurfa að vera yfirgripsmiklar og reglulega æfðar.
  • Fjármagn til allra lykilstofnana: Ekki einungis Fjarskiptastofu, heldur einnig Samgöngustofu, raforkueftirlits og embættis landlæknis.
  • Mat á varaafli mikilvægra innviða: Sérstaklega þarf að meta hvort varaafl Landspítalans og annarra lykilstofnana dugi við stórfelldum truflunum.

Netöryggi er þjóðaröryggismál

„Ég skora á ríkisstjórnina að setja þetta mál í forgang,“ sagði hún að lokum. „Netöryggi er ekki einungis tæknilegt viðfangsefni heldur beinlínis þjóðaröryggismál – og megi því ekki sinna af hálfkáki.“

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi: