Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að veita Íslandi og Noregi ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum á innflutning kísiljárns og annarra kísilblanda. Hvatti hann til breiðrar samstöðu um næstu skref.
„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar. Það reynir á samstöðu okkar hér inni sömuleiðis,“ sagði Þórarinn Ingi og lagði áherslu á að hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi. Þjóðin verði nú að „spyrna við fótum því að það gengur ekki að láta koma svona fram við sig“.
Þórarinn Ingi tók skýrt fram að EES-samningurinn væri íslensku þjóðinni afar mikilvægur, bæði fyrir vöxt og þróun atvinnulífs, og að það væri ekki raunhæfur kostur að „hlaupa til baka“ úr þeim samningi.
Hann sagðist þó telja að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar marki ákveðin tímamót í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Að hans mati verði Íslendingar nú að „horfa á hlutina eins og þeir eru“ og gera skýrt að það gangi ekki upp til lengdar að EES-ríki séu sett undir almennar verndaraðgerðir án þess að tekið sé sérstakt tillit til þeirra stöðu.
Spyr hvort endurmeta eigi innleiðingu EES-reglna
Í ræðu sinni tók Þórarinn Ingi undir vangaveltur hvort Ísland ætti að bregðast við með því að endurmeta afstöðu sína til innleiðingar EES-gerða á næstu misserum.
„Eigum við að velta fyrir okkur öllum þeim innleiðingum sem liggja á borðinu fyrir framan okkur? Eigum við aðeins að hægja á?“ spurði Þórarinn Ingi og nefndi sérstaklega bókun 35 við EES-samninginn og ETS-kerfið (viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir) sem dæmi um mál sem mætti skoða sérstaklega í ljósi stöðunnar.
„Leiknum er ekki lokið“
Þrátt fyrir að Ísland og Noregur hafi orðið undir í þessari „lotu“ sagði hann að „leiknum væri ekki lokið“.
„Við verðum öll í þessu að velta öllum steinum við og umfram allt verðum við að standa saman í því að verja hagsmuni þjóðarinnar. Það er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum og hvatti þingheim til að sýna einhug í málinu, þvert á flokkslínur.
