Categories
Fréttir

Ný atvinnustefna er lykilatriði fyrir land og þjóð

Deila grein

16/09/2025

Ný atvinnustefna er lykilatriði fyrir land og þjóð

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, fjallaði um vinnu við mótun nýrrar atvinnustefnu í ræðu sinni í störfum þingsins og lagði áherslu á mikilvægi þess að menntun, nýsköpun og byggðaþróun yrðu órjúfanlegur hluti þeirrar stefnumótunar.

Þórarinn Ingi sagði mótun nýrrar atvinnustefnu væri „grundvallaratriði fyrir framtíð þjóðarinnar og samkeppnishæfni atvinnulífsins“. Að hans mati sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að endurmeta reglulega áherslur í efnahagsmálum, þar sem þær hafi áhrif á „allt gangverk samfélagsins og lífsgæði fólks“.

Menntun í takt við þarfir atvinnulífs

Þórarinn Ingi lagði sérstaka áherslu á að tengja menntun og færniþróun betur við þarfir atvinnulífsins. „Við þurfum að tengja betur nám og færniþróun við þarfir atvinnulífsins,“ sagði hann og nefndi hann að slíkt hefði áhrif á margvíslega þætti samfélagsins, þar á meðal innflutning vinnuafls, húsnæðismarkað.

Nýsköpun, frumkvöðlastarf og byggðir

Þórarinn Ingi sagði að Framsókn styddi ferlið við mótun atvinnustefnu og hygðist leggja fram eigin hugmyndir með áherslu á nýsköpun, þróun landsbyggðarinnar, ábyrga matvælaframleiðslu og stuðning við ungt fólk sem vilji „skapa verðmæti og taka áhættu“. Hann vísaði jafnframt til hugmyndar sinnar um „nýjar rætur“, sem snýr að því að ríkið styðji við fólk sem er reiðubúið að takast á við áhættu til að skapa verðmæti á landsbyggðinni.

„Verkefni fyrir alla þjóðina“

„Þetta er verkefni fyrir alla þjóðina,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum. „Með samvinnu, framtíðarsýn og jákvæðum hugmyndum getur mótun nýrrar atvinnustefnu orðið mikið framfaraskref fyrir land og þjóð.“