Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, kallaði eftir nýrri nálgun í fjármögnun og viðhaldi vegakerfisins í ræðu í störfum þingsins á Alþingi. Hann benti á að núverandi fjármögnun væri ófullnægjandi og að aukinn kostnaður vegna hækkunar á hráefni og aðföngum hefði gert stöðuna enn erfiðari.
„Ég held að við öll sem erum hér í þessum sal séum sammála því að ástand vegakerfisins sé ábótavant. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er orðin slík að nánast er ógerningur að vinna á henni með þeim fjármunum sem ætlaðir eru til viðhalds í fjárlögum hvers árs,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að boðuð aukning upp á 7 milljarða kr. í nýrri fjármálaáætlun væri engan veginn nægjanleg.
Stefán Vagn lagði fram tillögu um að nýta svokallað „Hvalfjarðargangamódel“ sem fyrirmynd við gjaldtöku og fjármögnun samgönguframkvæmda. Hann sagði módel þetta hafa sýnt fram á árangur bæði hérlendis og í Færeyjum, þar sem það hefur verið notað með góðum árangri.
„Við vitum hvaða leið við þurfum að fara. Hún hefur verið farin hér áður með góðum árangri, svo góðum að vinir okkar í Færeyjum ákváðu að taka hana upp og nota sem fyrirmynd við sína jarðgangagerð. Það er vissulega kaldhæðnislegt að við skulum síðan tala um að taka módel upp eftir þeim,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að Íslendingar ættu stundum til að „flækja einfalda hluti“.
***
Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Mig langar hér í dag að ræða aðeins um samgöngumál og fjármögnun vegakerfis á Íslandi. Ég held að við öll sem erum hérna inni í þessum sal séum sammála því að ástandi vegakerfisins sé ábótavant, enda hefur komið fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins sé af þeirri stærðargráðu að nánast er ógerningur að vinna á henni svo heitið getur með þeim fjármunum sem ætlaðir eru til viðhalds vega í fjárlögum hvers árs. Krafa um mikilvægar og ábatasamar nýjar framkvæmdir um allt land eru sömuleiðis kostnaðarsamar og því ljóst að fjármagn sem ætlað er til samgöngumála, viðhalds og nýframkvæmda dugir skammt. Taka verður inn í reikninginn að hækkanir á hráefni og aðföngum hafa orðið verulegar á síðustu árum sem eru ekki til þess fallnar að hjálpa okkur í þessu verkefni. Sú aukning sem boðuð er í nýrri fjármálaáætlun upp á 7 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar dugar því skammt. Samgönguáætlun er ekki enn fram komin og því ómögulegt að reyna að átta sig á hvernig einstökum framkvæmdum líður. Þó má vera ljóst að allt tal og hugmyndir um að hafa tvenn eða jafnvel þrenn jarðgöng í framkvæmd á hverjum tíma eru ekki að fara að ganga eftir og varla ein miðað við þetta.
Sama hvar í flokki við erum hljótum við að vera sammála um að það þurfi nýja nálgun á verkefnið. Við þurfum að horfa á nýjar leiðir í gjaldtöku og fjármögnun á nýframkvæmdum. Með þeim hætti væri hægt að setja mun meira af fjármagni til viðhalds og vinna þannig betur á innviðaskuldinni. Ég held við vitum nokkuð hvaða leið við þurfum að fara. Hún hefur verið farin hér áður og gekk vel, svo vel að vinir okkar í Færeyjum ákváðu að taka hana upp og nota sem módel í jarðgangagerð þar. Ég er að tala um Hvalfjarðargangamódelið, virðulegur forseti, módel sem við bjuggum til, Færeyingar tóku upp eftir okkur og við tölum síðan um að taka upp eftir Færeyingum. Við eigum það til að flækja einfalda hluti.“