Categories
Fréttir

Nýir samningar við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur

Deila grein

18/09/2015

Nýir samningar við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur

SIJNýir samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur náðust á samningafundi sem staðið hefur sl tvo daga í Reykjavík. Samningarnir munu stuðla að auknu vöruúrvali og lægra vöruverði á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur. Jafnframt fela samningarnir í sér veruleg ný tækifæri fyrir útflytjendur. Vonir standa til að samningarnir geti tekið gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands.
„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samningum um gagnkvæma niðurfellingu tolla sem mun hafa mjög jákvæðar áhrif fyrir neytendur og mikil sóknarfæri til aukins útflutnings,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Almennt gerir ESB slíkt hið sama. Niðurstaðan felur í sér að allir tollar á unnar landbúnaðarvörur eru felldir niður nema á jógúrt. Sem dæmi munu tollar falla niður á súkkulaði, pizzum, pasta,  bökunarvörum o.fl. Auk þessa eru tollar felldir niður eða lækkaðir á óunnum landbúnaðarvörum eins og t.d. villibráð, frönskum kartöflum, útiræktuðu grænmeti o.fl.
Jafnframt er samkomulag um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsra innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost.
Samhliða var lokið samningi milli Íslands og ESB um gagnkvæma viðurkenningu á heitum afurða sem vísa til uppruna. Í meginatriðum felur samningurinn í sér að íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að vernda á yfirráðasvæði sínu heiti afurða sem vísa til uppruna og njóta verndar innan ESB.
„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Formlegar viðræður hófust árið 2012. Nýjum samningum er ætlað að koma í stað samninga frá 2001 um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur og 2007 um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.
Samningarnir munu nú fara í lögfræðilega yfirferð og lokafrágang og verða lagðir fyrir til formlegs samþykkis ESB og íslenskra stjórnvalda.