Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart framhaldsskólunum og spurði hvort forsætisráðherra stæði að baki því að skólameistarar væru látnir víkja án skýrra áforma, án lagastoðar og án þess að Alþingi fengi málið til meðferðar.
Tilefnið er sú ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra að endurnýja ekki ráðningar tveggja skólameistara á framhaldsskólastigi, annars vegar við Borgarholtsskóla og hins vegar við Menntaskólann á Egilsstöðum. Forsætisráðherra hefur þegar viðurkennt á Alþingi að hún hafi verið upplýst um að ekki yrði endurnýjað ráðningarsamning skólameistara Borgarholtsskóla. Ingibjörg spurði nú hvort sama ætti við um skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum sem fékk fyrst fregnir af stöðu sinni í fjölmiðlum.
„Staðan sem blasir við er fullkomin óvissa,“ sagði Ingibjörg. Hún benti á að skólasamfélagið fengi engin skýr svör: kennarar, nemendur og foreldrar stæðu nú frammi fyrir „óútskýrðum og óútfærðum stjórnsýslubreytingum“ án þess að sjá heildarmynd eða rökstuðning.
Ráðherra virðist taka ákvörðun um að endurnýja ekki skipun skólameistara út frá áformum um svæðisskrifstofur sem hvorki liggja fyrir í lagafrumvarpi né í samþykktum Alþingis. „Hæstv. ráðherra getur ekki sagt hvernig þessar svæðisskrifstofur eigi að vera, hvar eigi að vera og með hvaða hætti,“ sagði Ingibjörg og benti á að hér væri framkvæmdarvaldið að hrinda í framkvæmd breytingum sem hvorki hefðu verið lögfestar né fengið þinglega meðferð.
Ingibjörg benti einnig á að þetta væri ekki einsdæmi hjá núverandi ríkisstjórn. Hún rifjaði upp ákvörðun þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra um að skipa ekki í stjórn Tryggingastofnunar á þeim forsendum að ætlunin væri að leggja stjórnina síðar niður, þrátt fyrir að ekkert slíkt hefði verið samþykkt á Alþingi. Þau vinnubrögð voru gagnrýnd á sínum tíma, en engu að síður virtist forsætisráðherra „standa með þeim aðgerðum“ eins og Ingibjörg orðaði það.
Ingibjörg lagði þunga áherslu á ábyrgð forsætisráðherra á heildarvinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hún spurði hvort ríkisstjórnin hygðist breyta hefðum um endurráðningu embættismanna almennt, ekki aðeins skólameistara, og hvort það væri vilji forsætisráðherrans að ráðherrar hennar framkvæmdu ákvarðanir sem „hvorki eiga sér lagastoð né hafa hlotið þinglega meðferð“.
„Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um þessi ófaglegu vinnubrögð gagnvart skólameisturum framhaldsskólanna, gagnvart skólasamfélaginu og gagnvart Alþingi?“ spurði Ingibjörg og krafðist þess að forsætisráðherra tæki skýra pólitíska afstöðu til þess hvort hún hygðist verja ráðherrana eða krefjast faglegra og gagnsærri stjórnsýslu.
