Categories
Fréttir

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Deila grein

10/04/2025

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi um alvarlegt ástand kynferðisofbeldis gegn börnum á í störfum þingsins á Alþingi. Hún benti á átakið „Ég lofa“ sem Barnaheill hefur staðið fyrir, þar sem kynferðisofbeldi gegn börnum er sérstaklega tekið fyrir.

Sláandi tölur

Samkvæmt nýjustu rannsóknum frá 2024, sem Barnaheill hefur tekið saman, eru tölurnar sláandi. Um 700 börn í 8.-10. bekk hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra og 250 börn af hálfu fullorðinna. Innan við helmingur þessara barna hefur sagt frá ofbeldinu.

Áhrif á stúlkur í 10. bekk

Halla Hrund lagði áherslu á að yfir 50% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og fengið óumbeðið klámfengið efni sent til sín. „Mörg mál eru tilkynnt til lögreglu en þó langt í frá stór hluti þeirra, um tvö á viku eða 126 á árinu 2024.“

Samkvæmt skýrslu Stígamóta frá 2023 voru 52,1% þeirra sem leituðu til samtakanna á barnsaldri þegar ofbeldið átti sér stað og 27,4% undir tíu ára.

Kallað eftir aukinni fræðslu

Halla Hrund kallaði eftir aukinni fræðslu og umræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum. „Þetta er einfaldlega hræðileg staða. Hvert og eitt barn sem verður fyrir slíku ofbeldi glímir við afleiðingarnar út ævina og það er okkar skylda að tala meira um þetta og efla fræðslu.“ 

Hún skoraði á þingmenn og ráðherra málaflokksins að setja þetta mál á oddinn og tryggja að börn fái þá vernd sem þau eiga rétt á.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi: