Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, krafðist þess, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, að heilbrigðisráðherra grípi þegar í stað til aðgerða til að tryggja bráðaþjónustu fyrir íbúa Norðurlands og allt landið.
Ingibjörg sagði verstu sviðsmyndina vera að raungerast, „[e]ftir 22. desember er búið að gefa það út að það verði enginn sérfræðingur, enginn lyflæknir, á vakt og því verður mikilvægur hluti bráðaþjónustu og lyflækninga ómannaður á Sjúkrahúsinu á Akureyri.“
„Hornsteinn heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi“
Ingibjörg minnti á að lögbundið hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri væri að veita almenna og sérhæfða þjónustu í nær öllum sérgreinum, auk þess að vera varasjúkrahús landsmanna þegar Landspítalinn stendur höllum fæti. Sjúkrahúsið er jafnframt miðstöð sérhæfðrar þjónustu fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi og lykilaðili í sjúkraflugi landsins.
„Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlandi og eitt af grundvallaröryggistækjum heilbrigðiskerfisins,“ sagði Ingibjörg meðal annars og ítrekaði að hvorki stjórn sjúkrahússins né starfsfólkið bæri ábyrgð á ástandinu; þar hafi fólk unnið „þrekvirki við ómögulegar aðstæður“ til að halda þjónustunni gangandi.
Ingibjörg beindi spurningum til heilbrigðisráðherra: Hvernig hyggist ráðherra bregðast við ástandinu? Hver eru raunveruleg áform um að tryggja mönnun bæði til skamms tíma og lengri framtíðar?
