Categories
Fréttir

Okkar að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land

Deila grein

26/09/2024

Okkar að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hversu stór skref hafi verið stigin sem styrkja sérstaklega heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, s.s. fjarheilbrigðisþjónustu og undirbúning fyrir ívilnun í Menntasjóðnum fyrir svæði þar sem vantar sérfræðinga, eins og í heilbrigðiskerfinu. Það mun allt hjálpa til við að fá sérfræðinga til að flytja út á land.

„Við viljum búa heilbrigðisstarfsmönnum okkar gott vinnuumhverfi. Við sjáum dæmi um að það eru sjúkrabílaskýli þar sem hefur þurft að brjóta úr veggjum til að koma nútíma sjúkrabílum fyrir. Á sumum landsvæðum er heimahjúkrun enn ekki til staðar og stundum þurfa foreldrar að ferðast langar vegalengdir til að fara í mæðravernd og ungbarnavernd. Einnig vitum við að hægt væri að nýta húsnæði heilbrigðisstofnana mun betur sums staðar og jafnvel samnýta með öðrum opinberum stofnunum,“ sagði Lilja Rannveig.

„Við sem búum úti á landi finnum vel fyrir því að mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu, sem er til staðar, er mjög góður. En við þurfum að sjá til þess að vinnuumhverfi þeirra standist nútímakröfur og því er úrbóta þörf á mörgum heilsugæslum.“

„Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hafa tekið vel í ábendingar mínar varðandi úrbætur sem þarf að fara í á heilsugæslum í kjördæminu. Heilbrigðismál skipta okkur öll miklu máli og því þurfum við stöðugt að hafa augun á boltanum til að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.