Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, vakti athygli í störfum þingsins á breytingum sem gerðar voru á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna árið 2017. En málið er til umræðu eftir umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV, þar sem fram kom að breytingarnar hafi hvorki verið ræddar opinberlega né birtar.
Jóhann Friðrik benti á að samkvæmt 24. grein þingskapa skuli utanríkismálanefnd Alþingis vera ríkisstjórninni til ráðgjafar varðandi meiri háttar utanríkismál. Stjórnvöldum beri skylda til að kynna slík mál fyrir nefndinni jafnt á þingtíma sem í þinghléi.
Viðmælendur Kveiks lýstu því að umrædd breyting hefði átt að vera kynnt utanríkismálanefnd, þar sem hún fól í sér ákveðnar skuldbindingar milli ríkjanna. Utanríkisráðuneytið hafi hins vegar metið svo að breytingarnar væru einungis tæknilegs eðlis og þyrfti því ekki að leggja fyrir Alþingi. Jóhann Friðrik vakti sérstaklega athygli á því að undirritun samningsins hefði farið fram í október 2017, á þeim tíma sem starfsstjórn var við völd. Hann lýsti því yfir að venjan sé sú að meiri háttar ákvarðanir séu ekki teknar við slíkar aðstæður.
Jóhann Friðrik hefur óskað eftir því að utanríkismálanefnd Alþingis fái fullnægjandi skýringar á ferlinu til að eyða allri óvissu. Hann undirstrikaði mikilvægi þess að opinská umræða um varnar- og öryggismál fari fram á vettvangi Alþingis, ekki síst til að tryggja traust þjóðarinnar og bandalagsþjóða Íslands.
„Við eigum ekki að forðast að ræða mikilvæg varnar- og öryggismál,“ sagði Jóhann Friðrik og lagði áherslu á að öryggishagsmunir Íslands væru í húfi og að öllum skuldbindingum yrði að vera skýrt og greinilega miðlað.
***
Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:
„Frú forseti. Það má með sanni segja að umfjöllun Kveiks í gær um öryggis- og varnarmál hafi vakið upp ýmsar spurningar. Það kom fram að breyting hafi verið gerð á varnarsamningi Bandaríkjanna og Íslands árið 2017 sem hvorki var rædd opinberlega né birt hérlendis svo vitað sé. Samkvæmt viðmælendum Kveiks var þarna um að ræða skuldbindingu sem sannarlega hefði átt að vera kynnt utanríkismálanefnd þingsins. Ég lagði til við hv. utanríkismálanefnd í morgun að nefndin fengi skýringar á því ferli sem þarna fór fram og var því vel tekið. En af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Jú, það er vegna þess að skv. 24. gr. þingskapa skal utanríkismálanefnd vera ríkisstjórn til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem og í þinghléi. Svo virðist sem utanríkisráðuneytið hafi á þeim tíma talið óþarft að leggja samninginn fyrir Alþingi, í honum fælust einungis tæknilegar útfærslur. Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti hvað það varðar en ég tel mikilvægt að við komumst til botns í því og eyðum allri óvissu. Ef upplýsingar mínar reynast réttar, að skrifað hafi verið undir samninginn í október 2017, var það á þeim tíma sem starfsstjórn var í landinu. Hingað til höfum við haft það þannig að meiri háttar ákvarðanir eru ekki teknar við slíkar aðstæður.
Virðulegi forseti. Bandaríkin eru og verða ein af okkar helstu bandalagsþjóðum. Ég vænti þess að jafnvel muni samstarf ríkjanna varðandi öryggis- og varnarmál aukast á næstu misserum. Við eigum ekki að forðast að ræða mikilvæg varnar- og öryggismál. Ég tel að ríkisstjórnin sé að setja aukinn þunga í málaflokkinn vegna þeirra öryggishagsmuna sem fyrir liggja. Það má ekki vera vafi um skuldbindingar okkar. Við eigum að taka virkan þátt í varnarsamstarfinu og skapa traust meðal þjóðarinnar og bandalagsþjóða okkar með opinni umræðu.“