Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur á ný á móti umsóknum um hlutdeildarlán. Lánin eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og koma þá til viðbótar lánum frá öðrum lánastofnunum. Hlutdeildarlán eru hluti af aðgerðum ríkisins til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin samþykkti í sumar að setja auka milljarð í hlutdeildarlán sem eiga að auðvelda tekjulágum fyrstu kaupendum að eignast hagkvæmt húsnæði.
Hlutdeildarlánum ætlað að hjálpa fólki að komast af leigumarkaði
Hlutdeildarlán eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og þarf lántaki sjálfur að reiða fram a.m.k. 5% í eigið fé. Lánin bera ekki vexti og ekki þarf að greiða af þeim mánaðarlegar greiðslur. Lán eru greidd til baka eftir 10-15 ár, eða við sölu íbúðar.
Markmið lánanna er að auðvelda kaupendum að brúa bilið við fasteignakaup og komast af leigumarkaði. Þau standa þeim til boða sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, hafa ekki átt fasteign síðastliðin fimm ár og eru undir ákveðnum tekjumörkum.
„Skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra“
Við samþykkt laga um hlutdeildarlán á Alþingi í september 2020, sagði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra:
„Ég er gríðarlega ánægður með að hlutdeildarlánin hafi verið samþykkt á Alþingi í dag og með því erum við að stíga mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn, og þar með auka öryggi fjölskyldna landsins þegar kemur að húsnæðismálum. Þessi aðgerð hefur reynst afskaplega vel í Skotlandi og lánin munu hafa jákvæð áhrif á byggingu húsnæðis á landsbyggðinni.“