Categories
Fréttir

Orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana

Deila grein

09/10/2024

Orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Tillagan gengur út á að fela ríkisstjórninni að styðja rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna, hjá embætti landlæknis hefur sett af stað um orsakaferli sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Markmið tillögunnar er að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og dauðsföll vegna óhappaeitrana.

Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að styðja rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna, hjá embætti landlæknis hefur sett af stað um orsakaferli sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Afla skal nauðsynlegra gagna og uppsetning þeirra studd svo að rannsóknin skili árangri sem nýtist við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og sem nýtast í forvarnastarfi. Tryggja skal að hægt verði að skoða framangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt til að meta árangur aðgerða. Í kjölfarið verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd innan stjórnsýslunnar.“

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.

Það er vel viðeigandi að ræða þessa tillögu rétt áður en gulur september líður undir lok 10. október. Ég vil hefja ræðu mína á því að hvetja öll þau sem finnst lífið stundum ekki þess virði að lifa því til að leita hjálpar. Hægt er að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða fara á netspjallið 1717.is, hringja í símanúmerið 1700 á vegum Heilsuveru eða fara á netspjall Heilsuveru og hringja í Píeta-símann, 552 2218. Einnig vil ég brýna fyrir okkur öllum að vera vakandi fyrir merkjum um andlegan vanlíðan hjá þeim sem standa okkur nærri og vera til staðar.

Það er óhætt að segja að tillagan snerti samfélagið allt, sem endurspeglast m.a. í þeim mikla stuðningi sem tillagan hefur fengið hér á Alþingi þvert á þingflokka. Það má í raun segja að um sögulega stund sé að ræða í ljósi aðstæðna í stjórnmálum þessa dagana að þingsályktunartillaga fái stuðning allra þingflokka og þingmanna. Listinn yfir flutningsmenn tillögunnar sýnir að við stöndum öll saman í baráttu okkar gegn sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana.

Aðdáunarverð vinna er unnin dag hvern hér á landi, bæði á stofnunum og hjá félagasamtökum. Þar má nefna heilsugæsluna, Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans, BUGL, Sorgarmiðstöðina, Virk – starfsendurhæfingarsjóð og fleiri. Talsverð vinna hefur verið unnin innan stjórnsýslunnar, aðallega á grunn- og framhaldsskólastigi og innan heilbrigðiskerfisins. Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum frá 2018 er nú í endurskoðun hjá starfshópi sem skipaður var af heilbrigðisráðherra. Ný áætlun verður væntanlega kynnt á haustmánuðum, en hún felur í sér öll stig forvarna með áherslu á að greina áhættuhópa.

Af öllu þessu er ljóst að öflugt forvarnastarf er til staðar með samvinnu ríkisins og félagasamtaka. Markmiðið er ávallt að grípa einstaklinginn, koma í veg fyrir að sjálfsvígshugsanir hans leiði til sjálfsskaða og jafnvel dauða. Forvarnastarf af þessu tagi er flókið þar sem áhættuþættir eru margir; andlegir, líkamlegir, umhverfislegir og félagslegir. Oftar en ekki er það samspil fjölda mismunandi þátta sem leiðir til þess að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsvígs.

Öll viljum við gera enn betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra.

Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og dauðsföll vegna óhappaeitrana.

Þingsályktunartillagan var áður lögð fram á síðasta löggjafarþingi en hefur nú tekið talsverðum breytingum, m.a. í ljósi þess að starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur unnið að sama markmiði og fólst í tillögunni. Það er að rannsaka orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana, afla allra gagna sem geta bent til þess í hvaða hugarástandi viðkomandi hafi verið, skrá og greina þau gögn í þeim tilgangi að geta betur mótað aðgerðir og gripið einstaklinga í áhættuhópum. Þannig getum við vonandi komið í veg fyrir að slíkir atburðir eigi sér stað.

Hópurinn safnar gögnum sem spanna heilsufarssögu þess látna allt að tíu ár aftur í tímann, þar á meðal lyfjaávísanir, komur til heilbrigðisstofnana og vistanir á þeim, sjúkdómsgreiningar, meðferðir og upplýsingar um ýmsa félagslega þætti sem fengnar hafa verið úr heilsufarsskrám. Úr dánarmeinaskrá eru fengnar upplýsingar um dánarorsakir, kyn, og aldur við andlát. Auk þessa er mikilvægt að gagnaöflun sem snýr að lýðfræðilegum breytum eigi sér stað ásamt fræðilegri uppsetningu þeirra.

Í vinnu sem þessari er umfangsmikil öflun gagna mikilvæg svo að hægt sé að fá haldbærar niðurstöður ásamt því að tryggja að uppsetning þeirra gefi skýra og rétta heildarmynd. En í því samhengi er vert að benda á að gögn eru fengin úr mismunandi gagnagrunnum. Því þarf að tryggja að greitt verði úr mögulegu ósamræmi milli þeirra gagnagrunna áður en fræðileg úrvinnsla hefst. Sú vinna er aðeins á færi sérmenntaðs starfskrafts sem samhæfir gögnin og hreinsar til þannig að gagnagrunnurinn verði villufrír.

Rannsóknir lögreglu og héraðslækna eftir andlát eru gerðar til að ákveða hvort það hafi borið að með saknæmum hætti. Ef það er ekki raunin þá er almennt ekki aðhafst frekar. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá, þar á meðal ef um er að ræða sjálfsvíg. Þess vegna koma ekki fram þeir þættir sem kynnu að hafa komið einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið.

Við getum tryggt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir heilsufarslegar upplýsingar, lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða óhappaeitrunar. Þá er til dæmis átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, ástvinamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Oftar en ekki er það samspil fjölda mismunandi þátta sem leiðir til þess að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsvígs. Þar skiptir saga hvers og eins máli.

Með rannsókn á borð við þá sem starfshópur Lífsbrúar vinnur að í dag, sem getur skilað okkur dýrmætri afurð og aðferðafræði sem hægt er að nota til framtíðar, er hægt að ná til þeirra þátta. Vinna sem þessi, bæði í nútíð og framtíð, getur skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Af öllu þessu er mikilvægi vinnu starfshóps Lífsbrúar augljóst. Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að styðja rannsóknarverkefni hópsins og stuðla að því að hópurinn geti aflað allra nauðsynlegra gagna, unnið úr þeim og sett þau upp á greinargóðan máta svo að rannsóknin skili árangri sem nýtist við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.

Starfshópurinn skal svo skila skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og sem nýtast í forvarnastarfi. Tryggja skal að hægt verði að skoða framangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt til að meta árangur aðgerða. Í kjölfarið verður ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd innan stjórnsýslunnar.

Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmt samfélagslegt málefni og þeim fylgir alltaf sorg. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir verulegum áhrifum af hverju sjálfsvígi, sem leitt geta til heilsubrests til styttri eða lengri tíma. Talið er að um 6.000 manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Blessunarlega eru sjálfsvíg fátíður atburður en í ljósi lítils íbúafjölda hér á landi verða óhjákvæmilega verulegar sveiflur milli ára. Þegar fjöldi þeirra er reiknaður er yfirleitt stuðst við fimm ára meðaltöl. Meðaltöl tímabila frá aldamótum til 2023 sýna 32–38 sjálfsvíg á ári og tölur frá þessu ári gefa til kynna að þær séu að hækka. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að kannanir eins og á vegum Líðanar þjóðar á vegum embættis landlæknis og kannanir Rannsókna og greiningar á líðan ungmenna benda til vaxandi vanlíðunar í samfélaginu undanfarinn áratug. Einnig hefur staða ungra drengja verið mikið til umræðu. Vaxandi vanlíðan þeirra veldur áhyggjum, en sjálfsvíg eru 3,5 sinnum algengari hjá körlum en konum.

Andlátum vegna óhappaeitrana fjölgaði mikið frá aldamótum til og með 2021. Ef litið er til allra lyfjaflokka þá eru svefn- og róandi lyf algengust. Þá eru ekki meðtalin lyf eða efni eins og ópíóíða- og ofskynjunarlyf. Á árabilinu 2017–2021 létust að meðaltali 20 á ári vegna óhappaeitrana. Hefur tíðni í þessum flokki aukist frá árabilinu 2000–2006 til áranna 2017–2021 úr 2,3 í 7,6 á hverja 100.000 íbúa, langmest hjá körlum. Nær 65% dauðsfallanna eru af völdum ópíóíða- og ofskynjunarlyfja og fer fjöldi þeirra vaxandi. Það er ljóst að fjölgun þessara dauðsfalla er mikið áhyggjuefni í okkar samfélagi, en algengt er að umrædd lyf séu íblönduð fleiri efnum sem geta komið neytendum þeirra í lífshættu.

Virðulegi forseti. Vinna starfshópsins sem um er fjallað í tillögu þessari getur skipt sköpum í baráttu okkar gegn sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana. Við eigum að verða okkur úti um og nota öll þau tól sem hægt er að nýta í baráttunni og með tillögu þessari erum við að tryggja okkur mikilvæg tól til framtíðar. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn í kjölfar sjálfsvígs eða dauðsfalls vegna óhappaeitrunar.

Ég vísa tillögu þessari til velferðarnefndar og bind vonir við að hún nái fram að ganga á þessu löggjafarþingi. Að lokum vil ég þakka félögum mínum hér í þinginu fyrir stuðninginn við tillöguna og ítreka hversu nauðsynlegt það er að við öll sem samfélag séum til staðar hvert fyrir annað. Ræðum saman um þessi erfiðu málefni því að andleg vellíðan á aldrei að vera feimnismál.“