Categories
Fréttir

Óvissa um fjallaleiðsögunám á Hornafirði: „Vekur furðu í ljósi hörmulegs slyss“

Deila grein

21/05/2025

Óvissa um fjallaleiðsögunám á Hornafirði: „Vekur furðu í ljósi hörmulegs slyss“

„Það vekur furðu að eina faglega jöklanám landsins standi nú frammi fyrir óvissu,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi. En tilefnið er ákvörðun menntamálaráðuneytisins um að innritun í fjallaleiðsögn við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu verði hætt næsta haust.

Námið talið of kostnaðarsamt í fámennum skóla

Að sögn ráðuneytisins er námið dýrt í rekstri og erfitt að halda úti í litlum skóla. Um er að ræða sérhæft og vandað nám sem hefur byggst upp á síðustu árum í tengslum við ört vaxandi ferðaþjónustu og þörf fyrir faglega menntun í fjalla- og jöklaleiðsögn.

Jónína mótmælti þessari forgangsröðun og benti á samhengi við öryggismál í ferðaþjónustu, sérstaklega í ljósi banaslyss sem varð á Breiðamerkurjökli síðasta sumar.

„Ríkið hefur einmitt lagt aukna áherslu á öryggi ferðamanna eftir þetta hörmulega slys. Það gerir mikilvægi námsins enn skýrara,“ sagði hún.

Lendir milli skips og bryggju

Fjallaleiðsögunámið er staðsett á fjórða hæfniþrepi í menntakerfinu og lendir þannig milli tveggja kerfa, líkt og önnur sérhæfð nám á landsbyggðinni.

„Það lendir því milli skips og bryggju, líkt og gerst hefur með Hallormsstaðaskóla,“ sagði hún.

Einkarekstur vekur spurningar

Aðstandendur námsins hafa sótt um að stofna Fjallaskóla Íslands sem einkaskóla. Jónína vísaði í nýlega reynslu af breytingum á rekstri Kvikmyndaskólans sem nú er í höndum Rafmenntar og sagði slíkar aðstæður vekja fleiri spurningar.

„Það vekur spurningar að leita þurfi í einkarekstur með svona mikilvægt öryggistengt nám,“ sagði hún, og lagði áherslu á að fjallaleiðsögn og öryggi ferðamanna væri þverfaglegt mál.

Kallar eftir samstarfi ráðherra

Jónína sagði að málið ætti ekki aðeins undir menntamálaráðherra heldur einnig dómsmálaráðherra, sem fer með öryggismál, ferðamálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.

„Ég hvet því hlutaðeigandi ráðherra til að vinna saman að því að tryggja fjármögnun og framtíð þessa mikilvæga náms þannig að hægt verði að starfrækja það fram á næsta haust,“ sagði Jónína og bætti við að þetta væri í þágu „aukins öryggis ferðamanna og aukinnar fagmennsku í íslenskri ferðaþjónustu“.