Categories
Fréttir

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Deila grein

18/03/2025

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fagnar því að ríkið ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Hún bendir á að þessi vinna hafi hafist undir forystu fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra.

„Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg svaraði orðum Örnu Láru Jónsdóttur um húsnæðið við Blönduhlíð sem var hugsað sem viðbót við Stuðla og bæta þannig úrræðin. Hún bendir á að það hefði verið skynsamlegra að vinna málið betur. En minnir á að leigusamningurinn við Blönduhlíð kveður á um að ef húsnæðið reynist ekki hæft börnum á fyrstu sex mánuðunum, megi rifta samningnum. Ingibjörg leggur áherslu á að núverandi ríkisstjórn hafi valdið til að leysa málefni barna með fjölþættan vanda og spyr hvað ríkisstjórnin ætli að gera í þessum málum.

„Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Þessi vinna hófst undir forystu fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra sem vann að því, með skýra sýn, að ríkið tæki að sér ábyrgð og kostnað við þau úrræði sem eru þyngst og flóknust í þessum málaflokki.

Ég vil bregðast við orðum hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur sem kom hér áðan inn á húsnæðið við Blönduhlíð, húsnæði sem átti klárlega að vera viðbót við Stuðla og bæta úrræði í tengslum við málefni barna með fjölþættan vanda. Ég held að við getum öll verið sammála því að skynsamlegra hefði verið að vinna málið betur. Hins vegar er mikilvægt líka að koma því á framfæri að það stendur í leigusamningnum að komi í ljós á fyrstu sex mánuðunum að húsnæðið sé ekki hæft börnum af einhverjum ástæðum þá sé það ekki leigutakanum kenna og þá megi rifta leigusamningnum. Það hefur ekki verið gert af núverandi ríkisstjórn og hefur hæstv. ráðherra komið því á framfæri að húsnæðið muni fara í aðra notkun.

Þetta verkefni liggur ekki núna hjá fyrrverandi ríkisstjórn heldur liggur það hjá núverandi ríkisstjórn. Valdið er þar. Því spyr ég til baka: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum barna með fjölþættan vanda? Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst.“