Categories
Fréttir

Ræða Ingibjargar við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

11/09/2025

Ræða Ingibjargar við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Frú forseti. Kæru landsmenn. Við lifum á tímum sem kalla á festu, ábyrgð og víðsýni í stjórnmálum. Þjóðarbúið stendur sterkt þrátt fyrir margar áskoranir síðustu ára. Í alþjóðlegum samanburði er íslenskt samfélag í fararbroddi á mörgum sviðum. En það er ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Ég ræddi nýlega við unga fjölskyldu á Norðurlandi sem hafði flutt heim eftir nokkur ár erlendis. Þau sögðu ástæðuna einfalda. Þau vildu ala börnin sín upp í öruggu samfélagi, í heilbrigðu umhverfi, í heimabyggð sem þau tengdust frá bernsku. Það sem réð úrslitum var að þau sáu fram á að hægt var að treysta á innviði, skóla, heilbrigðisþjónustu, húsnæði og öruggar samgöngur. Þau trúðu á framtíðina fyrir norðan.

Þessi saga minnir okkur á að stefnumótun og fjármál snúast ekki aðeins um tölur á blaði heldur um lífsgæði fólks og hamingju. Ekki verður hjá því komist að takast á við efnahagslegar áskoranir til skemmri tíma. Það er áhyggjuefni að verðbólgan hafi ekki lækkað eins og stefnt var að, að vaxtalækkunarferlið hafi stöðvast, sem hefur mikil áhrif á daglegt líf heimila og fyrirtækja í landinu. Til að ná árangri þurfum við trúverðugleika og aga í ríkisfjármálum, að farið sé vel með hverja krónu, og að tryggja fyrirsjáanleika fyrir atvinnulífið og fjölskyldur í landinu.

Í fjárlögum næsta árs birtast áherslur ríkisstjórnarinnar og mikið er talað um tiltekt, tiltekt sem felur í sér auknar álögur á heimilin í landinu þvert á gefin loforð. Lífeyrisréttindi eldra fólks eru skert. Ekki er nægilega vel komið til móts við barnafjölskyldur. Í húsnæðismálum skilar ríkisstjórnin auðu, sem er í raun stórmerkilegt í ljósi þess hversu erfitt er fyrir ungt fólk í landinu og marga að eignast sitt eigið húsnæði. Þá er áhyggjuefni á hversu brothættum forsendum fjárlögin standa. Þau treysta á hagvöxt, sem vissulega hefur verið kröftugur á liðnum árum, en hagvöxtur er hins vegar ekki sjálfgefinn, allra síst þegar við horfum til þróunar alþjóðamála, stríðsátaka víða um heim og óvissu um tollamál.

Frú forseti. Í heilbrigðiskerfinu er enn verk að vinna. Skortur er á sérfræðingum víða um land og geðheilbrigðismálin eru okkur öllum áhyggjuefni. Börn og ungmenni bíða of lengi eftir aðstoð, of lengi eftir greiningum og þegar greining liggur fyrir tekur jafnvel við önnur lengri bið. Hér verðum við sem þjóð að krefjast þess að kerfið standi undir væntingum og að þjónustan sé jöfn og örugg óháð búsetu.

Virðulegi forseti. Menntakerfið er hornsteinn samfélagsins. Raunveruleg sókn í menntamálum snýst um að tryggja að allir skólar ráði við þær öru samfélagsbreytingar sem orðið hafa og munu halda áfram að verða, svo að börn okkar fái sem bestan grunn til framtíðar. Við eigum sterkan grunn að byggja á. Í skólum landsins starfar öflugt fagfólk en við verðum að styðja það áfram. Við eigum að fjárfesta í kennurum, stuðningsúrræðum, markvissum aðgerðum og faglegu starfi. Til að tryggja þann stuðning þarf raunhæf markmið, fjármögnun og hugrekki til umbóta.

Við verðum að gera kröfur. Við eigum að gera kröfur um að allir sem vilja búa hér læri íslensku og setja um leið þá kröfu á okkur að tryggja öllum raunveruleg tækifæri til að læra málið. Íslenskukunnátta er lykilþáttur þegar kemur að samfélagsþátttöku allra sem hingað koma til lands. Þar verðum við að hafa kjark til að setja skýr markmið, krefjast árangurs og fylgja því eftir. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir sköpum.

Námsmat í grunnskólum hefur einnig verið til umræðu og að foreldrar hreinlega skilji ekki námslega stöðu barna sinna. Við þurfum að leita leiða til að gera það gagnsærra, gera það skýrara. Við eigum að tryggja að börnin okkar fái viðeigandi kennslu, að foreldrar skilji framvindu náms barna sinna og að yfirvöld hafi raunverulega yfirsýn yfir stöðu menntakerfisins.

Frú forseti. Á komandi þingvetri munum við í Framsókn axla okkar hlutverk af ábyrgð. Við munum styðja við og greiða götu framfaramála en að sama skapi standa föst fyrir þar sem við teljum að vikið sé af leið. Við viljum halda áfram að móta samfélag í fararbroddi, samfélag sem setur fólkið í forgang, (Forseti hringir.) samfélag þar sem við höfum næg atvinnutækifæri, nýsköpun og öryggi, samfélag sem er fyrsti valkostur fólks (Forseti hringir.) eins og ungu fjölskyldunnar sem flutti norður og vill búa þar áfram. — Góðar stundir.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á 157. löggjafarþingi 10. september 2025.