Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, var fyrri ræðumaður Framsóknar á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið.
Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við upphaf kjörtímabils er ástæða til að óska nýrri ríkisstjórn, nýjum alþingismönnum, velfarnaðar í störfum og um leið ber ég þá ósk í brjósti að stjórnmálin muni sameina en ekki sundra þjóðinni á tímum þar sem samstaða og samvinna eru lykilatriði.
Við fögnuðum öll í síðustu viku þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálft prósent, í þriðja skiptið í röð sem vextir lækka. Þetta er í takt við áætlanir síðustu ríkisstjórnar og byggir á efnahagsstefnu síðustu ára. Allar forsendur eru fyrir áframhaldandi lækkun stýrivaxta en þá þarf ríkisstjórnin að sýna trúverðugleika við stjórn efnahagsmála. Nú reynir á.
Illviðri síðustu daga vikunnar urðu til þess að ríkisstjórnarflokkarnir blésu af stefnuræðu fimmtudagsins hér á Alþingi. Þrátt fyrir talsvert tjón á mannvirkjum víða um land slapp mannfólkið og það er vel. Það er hins vegar grafalvarlegt þegar allra veðra er von að þá skuli vera búið að loka einni af flugbrautum Reykjavíkurflugvallar, miðstöð innanlandsflugs og mikilvægasta hlekksins í sjúkraflugi. Við þessa stöðu getur enginn sætt sig. Við í Framsókn munum berjast fyrir að rekstraröryggi vallarins verði tryggt.
Nú í upphafi þings leggjum við í Framsókn áherslu á áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, neytendamál með áherslu á íbúðalán og húsnæðisöryggi en einnig orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Við höfum lagt fram þingmál um að hægt verði að taka 25 ára óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum. Auk þess leggjum við mikla áherslu á að halda áfram uppbyggingu leiguhúsnæðis í samvinnu við óhagnaðardrifin leigufélög en nú þegar hefur verið veittur stuðningur við byggingu rúmlega 4.000 íbúða. Auk þess er mikilvægt að efla hlutdeildarlánin sem er lausn sem hefur nýst yfir eitt 1.000 fjölskyldum að eignast sitt eigið húsnæði. Í þessum málum erum við í Framsókn ánægð að sjá að ný ríkisstjórn ætlar að halda áfram þeirri uppbyggingu sem við settum svo myndarlega af stað.
Atvinna er undirstaða alls. Verðmætasköpun er grundvöllur að góðum lífskjörum. Atvinnuleysi á Íslandi er hverfandi miðað við það sem gerist hjá mörgum Evrópuþjóðum, ESB-þjóðum sérstaklega, þar sem atvinnuleysi ungs fólks er víða talið í tugum prósenta. Það er valkosturinn fyrir Ísland.
Mér fannst og finnst við lestur þingmálaskrár og stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar að þar skorti verulega skilning á mikilvægi atvinnulífsins, ekki síst úti um land. Við í Framsókn munum standa vörð um atvinnumál um allt land, um auðlindirnar, um fullveldið. Andlandsbyggðarstefna ríkisstjórnarinnar birtist t.d. í hugmyndum um að stórhækka skattlagningu á sjávarútveginn sem mun ekki síst bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi og hvetja til enn frekari samþjöppunar. Og hver er eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar varðandi íslenskan landbúnað? Samkvæmt þingmálaskrá á að taka af sjálfsagðan rétt bænda til samstarfs í eigin fyrirtækjum, rétt sem allir bændur í allri Evrópu hafa, taka fram fyrir hendur æðsta dómstól landsins sem hefur málið til umfjöllunar. Og eru það almannahagsmunir að ganga erinda heildverslunar í að breyta réttri skilgreiningu á því hvað er ostur og lækka toll á innfluttar iðnaðarafurðir sem eru í samkeppni við innlenda hreina matvælaframleiðslu? Nei, það er sérhagsmunagæsla.
Virðulegi forseti. Í viðsjárverðum heimi er ekki eitt orð um fæðuöryggi í stefnuræðu forseta eða þingmálaskrá. Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar? Hringl í skattheimtuhugmyndum. Það hjálpar ekki samkeppnishæfni eða aukinni verðmætasköpun eða uppbyggingu ferðaþjónustunnar um allt land allt árið.
Mér fannst ekki mikið til koma stefnuræðu forsætisráðherra, ég skal viðurkenna það. Það er mun eftirtektarverðara hvað kemur ekki fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ekki stafkrókur um þá vegferð um þjóðaratkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin nýja ætli að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sundra þjóðinni, eins og Samfylkingu og Viðreisn dreymir um og hafa fengið stuðning úr óvæntri átt frá Flokki fólksins sem hefur kúvent stefnu sinni í þessu eins og mörgu. Reyndar er ekkert fjallað um stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum á þessum viðsjárverðu óvissutímum í stefnuræðu forsætisráðherra. Í umfjöllun um menntamál var ekki orði vikið í útsendri stefnuræðu að stöðu kennara eða þeirri grafalvarlegu stöðu að þúsundir barna hafi setið heima og að óbreyttu stefni í allsherjarverkfall. Hvar eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til fólksins sem var hérna úti, kennaranna sem voru hérna úti áðan? Það rifjast upp fyrir mér kjörtímabilið 2009–2013 þegar fólk hópaðist hér saman á Austurvelli og kallað inn en forsætisráðherra Samfylkingarinnar á þeim tíma vildi nýja stjórnarskrá. Það er kominn tími til að ríkisstjórnarflokkarnir átti sig á þeirri staðreynd að þetta er að gerast á þeirra vakt. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á að leysa málin.
Kæru landsmenn. Eins og allir vita og viðurkenna nú þá er fjölmargt jákvætt í íslensku samfélagi og mörg eru tækifærin. En við þurfum ríkisstjórn sem sameinar, ekki sundrar. Grípum tækifærin, því þau eru svo sannarlega til staðar. Við í Framsókn erum til í áframhaldandi uppbyggingu íslensks samfélags. Við erum til í samstarf og samvinnu um öll slík mál en við munum svo sannarlega veita ríkisstjórninni aðhald þegar það á við. — Góðar stundir.“