Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, spurði landbúnaðarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvort að hafin væri vinna við að bæta fyrirsjáanleika í raforkuverði til að einfalda garðyrkjubændum áætlunargerð og framleiðslu á afurðum sínum?
„Hver er staðan á framfylgd þeirra tillagna sem lagðar voru í hendur ráðherra eftir vinnu starfshópsins? Ef vinna er ekki hafin er spurning mín: Hvenær megum við búast við því að ráðherra hefji og jafnvel klári þá vinnu sem lagt er upp með í skýrslu starfshópsins?“
Hafdís Hrönn fór yfir að um mitt ár 2018 hafi verið skipaður starfshópur til að meta hvort að taka mætti til frekari skoðunar raforkumálefni garðyrkjubænda. Farið yrði yfir þróun raforkukostnaðar garðyrkjubænda og greina tækifæri til þróunar og nýsköpunar innan atvinnugreinarinnar.
„Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins um mitt ár 2019 en það virðist lítið hafa skilað sér í kjölfarið á því. Landbúnaðurinn spilar mikilvægt og margþætt hlutverk í íslensku samfélagi en er að mörgu leyti vannýtt auðlind. Mikilvægi landbúnaðarins virðist hins vegar ekki endurspeglast í stuðningi við greinina eða starfsumhverfi hennar. Þetta á m.a. við hjá garðyrkjubændum en þungt rekstrarumhverfi þeirra gerir þeim erfitt fyrir,“ sagði Hafdís Hrönn.
Taldi Hafdís Hrönn það mikilvægt að Íslendingar standi vörð um fæðu- og matvælaöryggi með dyggum stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu, sama í hverju hún felst.
„Meðal þeirra aðgerða sem við verðum að fara í er að jafna stöðu garðyrkjubænda óháð staðsetningu. Það er því augljóst að við þurfum að byrja á því að stuðla að meiri fyrirsjáanleika í raforkuverði. Með þessu er hægt að standa vörð um íslenska garðyrkjubændur og innlenda matvælaframleiðslu. Þannig tel ég að við tryggjum frjóan jarðveg fyrir heila starfsstétt til að vaxa og dafna,“ sagði Hafdís Hrönn.
Landbúnaðarráðherra svaraði svo til að „fyrirkomulagið um greiðslur til framleiðenda fer eftir búvörusamningum, þ.e. samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Samkomulag um breytingar á þeim samningi var undirritað 14. maí 2020 en með samkomulaginu var í fyrsta lagi bætt við framlag til garðyrkjunnar, það eru 200 milljónir á ári, frá og með árinu 2020 og út gildistíma samningsins og þar af var 70 milljónum bætt við árlega til greiðslu sérstaklega vegna raforku. Samkvæmt samningnum renna því um 385 millj. kr., uppfært árlega, til greiðslu vegna raforku og ylræktendum voru tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar, samanber þetta samkomulag. Framlög samkvæmt fjárlögum greiðast til framleiðenda miðað við notkun á raforku til gróðurhúsalýsingar. Með vísun til þess þá eru þessum framleiðendum í raun og veru tryggðar beingreiðslur til niðurgreiðslu í því skyni að stuðla að betra starfsumhverfi greinarinnar.“
Hafdís Hrönn minnti á að ekki mætti „sofna á verðinum. Aðstæður garðyrkjubænda má bæta töluvert, og þá sérstaklega hvað varðar kostnað vegna raforkukostnaðar. Það er einstaklega ánægjulegt að heyra ráðherra segja að hún hyggist leggjast í frekari aðgerðir sem stuðla að því bæta raforkumál garðyrkjubænda og að tryggja framtíð þessarar starfsstéttar. Garðyrkjubændur, sem stuðla meðal annarra að matvælaöryggi þjóðarinnar, eiga það skilið frá okkur.“