Rekstrargrunnur hjúkrunarheimila verður styrktur varanlega um 1,0 milljarð króna með fjárlögum næsta árs sem samþykkt voru á Alþingi í gær. Að auki er í fjárlögunum gert ráð fyrir 1,2 milljarða króna framlagi sem jafnframt er varanlegt, til að mæta auknum launakostnaði sem stafar af styttri vinnutíma vaktavinnufólks.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir það mikilvægt skref að fjárlaganefnd og Alþingi hafi nú ákveðið að renna styrkari stoðum undir rekstur hjúkrunarheimilanna. Vinnuhópur skipaður fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Sambandi sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu fjallaði fyrr á þessu ári um aukna fjárþörf hjúkrunarheimila og hve miklu þyrfti að bæta inn í rekstrargrunninn til að tryggja rekstur.
„Þessi hækkun á rekstrargrunninum um einn milljarð króna er í samræmi við niðurstöðu vinnuhópsins. Það er því óhætt að segja að breið samstaða sé um þessa auknu fjármuni sem tvímælalaust skapa hjúkrunarheimilunum betri stöðu og gera þeim betur kleift að veita íbúum sínum góða þjónustu,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.