Categories
Fréttir

Ríkisstyrkur til íþrótta er nauðsynlegur – „Þetta er jafnréttis- og sanngirnismál“

Deila grein

06/05/2025

Ríkisstyrkur til íþrótta er nauðsynlegur – „Þetta er jafnréttis- og sanngirnismál“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, hvetur ríkið til að axla aukna ábyrgð á stuðningi við íþróttastarf, sérstaklega á landsbyggðinni.

Mikill kostnaður fellur á fjölskyldur

Í ræðu á Alþingi í dag beindi Stefán Vagn athygli sinni að mikilvægi íþrótta fyrir börn og samfélagið, og þeirri fjárhagslegu byrði sem fellur á fjölskyldur – einkum á landsbyggðinni.

„Það verkefni sem við stöndum frammi fyrir í dag er kostnaðurinn við að halda úti slíku starfi, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem ferðakostnaður félaganna er oft mikill, sem endar oftar en ekki hjá iðkendum og fjölskyldum þeirra,“ sagði Stefán Vagn og lagði áherslu á að kostnaðurinn geti orðið umtalsverður fyrir venjulegar fjölskyldur, sérstaklega þegar um fleiri en eitt barn er að ræða.

Opinber ábyrgð og jöfn tækifæri

Íslensk löggjöf og stefna í málefnum barna og íþrótta leggur áherslu á jöfn tækifæri til þátttöku óháð búsetu eða efnahag. Þrátt fyrir það segir Stefán Vagn að ríkið hafi brugðist hlutverki sínu þegar kemur að stuðningi við starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni.

„Stuðningurinn við félögin kemur að mestu frá nærsamfélaginu og sveitarfélögunum. Þarna þarf ríkið að stíga sterkar inn,“ bætti hann við.

Lýðheilsa og samfélagslegur ávinningur

Stefán Vagn vísaði til jákvæðra áhrifa íþrótta á börn og samfélagið í heild: „Jákvæð áhrif íþrótta eru óumdeild hvað varðar lýðheilsu, félagslega sem og samfélagslega.“ Hann benti á að aukinn stuðningur við íþróttastarf muni skila sér margfalt til baka með sterkari einstaklingum, bættri heilsu og samheldnari samfélögum.

Áhrifum kostnaðarins gerði hann sérstaklega góð skil: „Foreldrar eru á sitthvorum enda landsins á sama tíma að fylgja barninu sínu eftir. Ekki þarf að útskýra fyrir þingmönnum hvað ein slík helgi kostar; akstur, möguleg gisting og fæði.“

Ríkið þarf að stíga inn – þetta snýst um réttlæti

Í niðurlagi sinnar ræðu lagði Stefán Vagn áherslu á að nú væri tímabært að ríkið létti undir með íþróttafélögum og þar með fjölskyldum og börnum þeirra.

„Við þurfum að gera betur í stuðningi við íþróttastarf; fjármagn sem við munum fá margfalt til baka,“ sagði hann og ítrekaði: „Þetta er jafnréttis- og sanngirnismál, virðulegur forseti.“