Categories
Fréttir

Saman gegn sóun

Deila grein

18/03/2016

Saman gegn sóun

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að frábiðja mér málflutning eins og þann sem hv. þm. Björn Valur Gíslason býður okkur upp á. Þar held ég að botninum hafi verið náð og finnst ekki ólíklegt að menn sem komnir eru á þennan stað á botninum eigi erfitt með að finna viðspyrnu til að koma sér upp. Það er algjörlega óboðlegt að vera með svona málflutning. Öll málefni þeirra ágætu hjóna eru uppi á borðinu, allir skattar hafa verið greiddir og hér er ekki verið að fela neitt.
Ég krefst þess að hv. þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum.
Annars ætla ég að byrja á því að óska Akureyringum til hamingju með þá ákvörðun Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar að flytja aðalskrifstofu hennar til Akureyrar. Þar er enn eitt dæmið um niðurstöðu af góðum verkum ríkisstjórnarinnar sem skilar sér beint inn í samfélagið og nýtist til fjölbreyttrar innviðauppbyggingar. Tvö til þrjú störf munu fylgja skrifstofunni auk starfa í tengslum við alþjóðanefndir vinnuhópa.
Það mun styðja við þær stofnanir um málefni norðurslóða sem þegar eru á svæðinu og efla rannsóknir í háskólabænum Akureyri. Það er vel.
Það leiðir mig svo að öðru máli sem ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um og varðar umhverfismál, því að nú hefur umhverfis- og auðlindaráðherra birt stefnu um úrgangsforvarnir. Ég hef vikið að því áður en vil benda á að kynning á stefnunni sem ber nafnið Saman gegn sóun verður í fyrramálið og er öllum opin. Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum. Mál sem varða úrgang fá stöðugt meira vægi vegna aukinna kvaða um meðhöndlun hans. Vissulega hafa íbúar margra sveitarfélaga náð miklum árangri á þessu sviði en þrátt fyrir það vantar enn þá nokkuð upp á að við Íslendingar stöndumst samanburð við þær þjóðir Evrópu sem lengst hafa náð.
Hæstv. forseti. Þarna er um að ræða mál sem við sem einstaklingar getum tekið ábyrgð á og lagt okkar af mörkum.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.