„Hvar er planið?“ spurði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og krafðist þess að ríkisstjórnin setti fram skýrar og sýnilegar aðgerðir í efnahagsmálum. Hún beindi fyrirspurn sinni að utanríkisráðherra og gagnrýndi aðgerðarleysi stjórnvalda á sama tíma og hún sagði efnahagslífið hafa orðið fyrir „hverju högginu á fætur öðru“.
Ingibjörg lýsti áhyggjum af víðtækum áhrifum á atvinnulíf og heimili og sagði „frostavetur“ hafa færst yfir íslenskt efnahagslíf. „Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi meiri áhuga á því að feta troðnar sauðagötur Brussel-borgar heldur en að bregðast við ástandinu,“ sagði hún.
Röð áfalla og þrenginganna hafa markað síðustu mánuði
Ingibjörg nefndi að starfsemi PCC hefði stöðvast, flugfélagið Play væri fallið, samdráttur hefði orðið í aflaheimildum, nær 70% starfsemi Norðuráls hefði stöðvast og fasteignamarkaðurinn væri „botnfrosinn“. Þá gengju landeldisverkefni hægar en vonir stóðu til, verðbólga væri á uppleið, vextir enn „allt of háir“ og merki væru um aukið atvinnuleysi án þess að hagræðingaraðgerðir sæjust. „Ofan á þetta bætist samdráttur í ferðaþjónustu sem hefur verið ein af burðarstoðum þjóðarbúsins,“ sagði hún og bætti við að „verkstjórnin er hreinlega ekki mætt í vinnu.“
Ingibjörg gagnrýndi skort á stefnu þvert á ráðuneyti og kvað brýnt að ráðast í markvissar aðgerðir til að bregðast við verðbólgu, fjármagnskostnaði og veikingu lykilgreina. „Það virðist sem það sé bara algert stefnuleysi í efnahagsmálum þrátt fyrir öll þessi áföll,“ sagði hún.
Ingibjörg spurði að lokum hvar og hvenær landsmenn mættu sjá „raunverulegar aðgerðir“ til að bregðast við stöðunni. „Spurningin mín er einföld: Hvar er planið?“
