Categories
Fréttir

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Deila grein

01/03/2024

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Í gær var fjórði dagur kjördæmavikunnar. Þingmenn okkar og ráðherrar hafa heldur betur ferðast víða og nýtt þennan dýrmætan tíma vel. Það skiptir máli bæði fyrir þá og kjósendur að hitta sem flesta, viðhalda mikilvægu samtali og kynnast öllum sjónarhornum um þau málefni sem eru helst í deiglunni í okkar samfélagi. Gærdagurinn var þar engin undantekning og voru m.a. haldnir fjórir opnir fundir á vegum Framsóknar.

Á Selfossi héldu Ásmundur Einar, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn opinn fund þar sem m.a. var rætt um frístundaverkefnið „Frá vanvirkni til þátttöku“, málefni hælisleitenda, landbúnaðarmál og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í Grindavík. Með þeim á fundinum voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg, þau Arnar Freyr Ólafsson og Ellý Tómasdóttir.

Á Skagafirði voru Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt sveitarstjórnarfulltrúum Framsóknar í Skagafirði, þeim Einari Eðvald Einarssyni, formanni byggðaráðs, Hrund Pétursdóttur og Hrefnu Jóhannesdóttur. Þar var m.a. rætt um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, raforkumál, verðbólgu og vexti, Skagafjarðarhöfn, búvörulög, og blóðmerar.

Á Reyðarfirði héldu Willum Þór, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi opinn fund ásamt Jóni Birni Hákonarsyni, Þuríði Lillý Sigurðardóttur og Birgi Jónssyni, bæjarfulltrúum Framsóknar í Fjarðabyggð. Þar var m.a. rætt um strandveiðikvóta, samgönguáætlun, bráðaheilbrigðisþjónustu, verðtrygginguna, Reykjavíkurflugvöll og verkefnið „Það er gott að eldast“.

Willum Þór og Líneik Anna héldu svo áfram og mættu á Egilsstaði seinna um daginn. Þar var m.a. rætt um hjúkrunarheimili, veiðigjöld, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, liðskiptaaðgerðir og þjónustugjöld á flugvöllum. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Múlaþingi, þau Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Vilhjálmur Jónsson og Björg Eyþórsdóttir.

Nú eru aðeins tveir opnir fundir eftir:

  • Í dag, klukkan 16 verða Willum Þór og Líneik Anna með fund í félagsheimili eldri borgara, Hlyn, á Húsavík. Sérstakir gestir verða sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Norðurþingi þau Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, og Eiður Pétursson.
  • Á morgun, laugardag, er opinn fundur í Kiwanissalnum í Hafnarfirði. Þar verður Ágúst Bjarni með bæjarfulltrúum okkar í Hafnarfirði, þeim Margréti Völu Marteinsdóttur og Valdimar Víðissyni, formanni bæjarráðs og verðandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar.