Categories
Fréttir

Sextán verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum

Deila grein

25/11/2015

Sextán verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum

Sigrún Magnúsdóttir_001Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára, sem er ætlað að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum til að raunverulegum árangri verði náð til að minnka nettólosun. Verkefni og áherslur sem kynnt eru undir hatti sóknaráætlunar eru fjölbreytt og mörg hver sjálfstæð en eiga það m.a. sameiginlegt að efla baráttuna gegn loftslagsbreytingum og virkja betur einstaklinga og atvinnulíf.
Áætlunin byggir á 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Áhersla er lögð á samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs um að draga úr losun í tilteknum greinum og ýta undir nýsköpun og loftslagsvænar lausnir.
Í heildina miða átta verkefni að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi; í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. Lögð verður fram heildstæð áætlun um orkuskipti í samgöngum og lagður grunnur að því að bæta innviði fyrir rafbíla á landsvísu. Í sjávarútvegi og landbúnaði verða unnir vegvísar um minnkun losunar í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. Sett verður aukið fé til landgræðslu og skógræktar og hafist handa við endurheimt votlendis. Einnig verður gert átak til að draga úr matarsóun, sem veldur óþarfa losun.
Fjögur verkefni miða að því að efla samstarf Íslands og aðstoð við önnur ríki við að draga úr losun og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Settur verður á fót samstöðuhópur um nýtingu jarðhita á heimsvísu, þar sem Ísland verður í forystu. Stuðningur við þróunarríki verður efldur, m.a. verða framlög til Græna loftslagssjóðsins aukin og Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna gert kleift að halda námsskeið í þróunarríkjum sem berjast gegn eyðimerkurmyndun. Virkari þátttaka verður af Íslands hálfu í loftslagsverkefnum á vegum Norðurskautsráðsins.
Þá verður hafið skipulagt starf varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum, sem m.a. verður byggt á skýrslu um áhrif breytinga á Ísland, sem ljúka á 2016. Vöktun á jöklum Íslands verður efld og stefnt að því að gera niðurstöður aðgengilegar fyrir vísindamenn, almenning og ferðamenn og kynna jöklana og umhverfi þeirra sem lifandi kennslustofu um loftslagsbreytingar.
[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][fusion_builder_column type=”1_1″ background_position=”left top” background_color=”” border_size=”” border_color=”” border_style=”solid” spacing=”yes” background_image=”” background_repeat=”no-repeat” padding=”” margin_top=”0px” margin_bottom=”0px” class=”” id=”” animation_type=”” animation_speed=”0.3″ animation_direction=”left” hide_on_mobile=”no” center_content=”no” min_height=”none”]

Frá hægri: Sigrún Magnúsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson

Sóknaráætlun er sett fram í tengslum við 21. aðildarríkjafund Loftslagssamningsins í París (COP21), þar sem reynt verður að ná hnattrænu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2030. Ísland styður metnaðarfullt samkomulag í París með virkri þátttöku allra ríkja. Ísland hefur kynnt landsmarkmið í aðdraganda fundarins um að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990.
Ekki er gert ráð fyrir að sóknaráætlunin sé miðstýrð eða að hún komi í staðinn fyrir núverandi aðgerðaáætlun til að draga úr nettólosun, sem er ætlað að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar skv. Kýótó-bókuninni til 2020. Settir verða ábyrgðarmenn fyrir verkefnin og óskað verður eftir  framvinduskýrslu um hvert verkefni á næsta ári.
Verkefni í sóknaráætlun munu setja kraft í vinnu í loftslagsmálum, fá fleiri að vinnunni og leggja línurnar varðandi markvisst starf til lengri tíma við að minnka losun og efla kolefnisbindingu.
Í viðauka er frekar gerð grein fyrir einstökum verkefnum og áherslum sóknaráætlunarinnar.

Verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum

Verkefni til að draga úr nettólosun á Íslandi
Í sóknaráætlun eru átta verkefni sem miða að samdrætti á nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þeim er ætlað að setja aukinn kraft í aðgerðir sem eiga að leiða til minni losunar og aukinnar kolefnisbindingar, sem aftur á að auðvelda Íslandi að standa við væntanlegar kröfur í loftslagsmálum á komandi árum. Í sóknaráætlun er lögð áhersla á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs þar sem lag er til þess, því raunverulegur árangur næst trauðla nema með samstilltum aðgerðum og breiðri þátttöku.

  • Orkuskipti í samgöngum: Aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi sem á hafi, verður lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2016. Áætlunin er unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, sem miðar að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis.  Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10% og mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að því að ná því marki.
  • Rafbílar – efling innviða á landsvísu: Átak verður gert til að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu á komandi árum. Mikil aukning hefur orðið í framboði og sölu rafbíla að undanförnu, en margir telja að ónógir innviðir hamli þessari þróun. Til lengri tíma er reiknað með því að uppbygging innviða, s.s. hraðdælna á rafmagni verði sjálfbær, þar sem margir hafa hag af því að setja upp rafdælur. Það er þó talið rétt að ríkisvaldið styrki tímabundið átak til að byggja upp innviði fyrir rafbíla þannig að hægt sé að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta, sem hefur nýlega orðið aðgengilegur almenningi. Vanda þarf til verka hvað þetta varðar og taka tillit m.a. til samkeppnissjónarmiða og reynslu Norðmanna og fleiri ríkja af verkefnum af þessu tagi. Grænu orkunni – samstarfsvettvangi um orkuskipti í samgöngum – verður falið að útfæra slíkt átak, sem verði fellt inn í framangreinda aðgerðaáætlun um orkuskipti sem lögð verður fram á Alþingi á vorþingi 2016. Sett verður til hliðar fjármagn til að tryggja að hægt verði að vinna að þessu verkefni strax á næsta ári.
  • Vegvísir íslensks sjávarútvegs um samdrátt í losun: Vegvísirinn verður unninn á vegum Hafsins – Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins. Farið verður yfir tækifæri og hindranir við að draga úr losun í sjávarútvegi með innleiðingu nýrrar loftslagsvænnar tækni og markvissra aðgerða á öðrum sviðum, með það að markmiði að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) um 40% til 2030 miðað við 1990. Vegvísirinn verður kostaður af stjórnvöldum og samtökum í atvinnulífi.
  • Loftslagsvænni landbúnaður: Unninn verður vegvísir um minnkun losunar í landbúnaði með samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands. Vegvísirinn mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi.
  • Efling skógræktar og landgræðslu: Sett verður aukið fjármagn til skógræktar og landgræðslu, sem á m.a. að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Framkvæmdir verða auknar á árinu 2016 og stefnt að frekari styrkingu á næstu tveimur árum eftir það. Þetta mun skila bindingu kolefnis úr andrúmslofti umfram það sem verið hefði.
  • Endurheimt votlendis: Sett verður á fót verkefni um endurheimt votlendis. Ráðist verður í fyrstu verkefnin undir þeim hatti sumarið 2016 á grunni vinnu starfshóps, sem hefur kortlagt vænleg svæði til endurheimtar, m.a. á þjóðlendum. Áfram verður unnið að kortlagningu framræstra svæða sem koma til til greina við endurheimt votlendis í samvinnu við bændur, landeigendur og náttúruverndarsamtök.
  • Kolefnisjöfnun í ríkisrekstri: Styrkt verða verkefni sem miða að kolefnisjöfnun í ríkisrekstri.
  • Átak gegn matarsóun: Matarsóun veldur óþarfa álagi á umhverfið, m.a. hvað varðar meiri losun gróðurhúsalofttegunda en ella. Ef gert er ráð fyrir að losun á hvern íbúa á Íslandi sé sambærileg meðallosun á hvern íbúa Evrópu þá er losun frá matarsóun Íslendinga á ári hverju áætluð rúmlega 200 Gg koldíoxíðígilda, sem jafngildir um 5% af árlegri heildarlosun Íslands árið 2013. Verkefni á vegum Umhverfisstofnunar sem og fleiri aðila hafa að markmiði að draga úr matarsóun með fjölþættum aðgerðum, sem gæti lækkað útgjöld almennings og stofnana og ná um leið ávinningi með minnkun losunar.

Blaðamnnafundur 270
Alþjóðlegar áherslur og verkefni til að draga úr losun á heimsvísu
Ísland hefur margt fram að færa til þess að draga úr losun á heimsvísu, t.d með verk- og tækniþekkingu á sviði jarðhita og landgræðslu. Auk þess er Ísland virkur málsvari samþættingar jafnréttis- og loftslagsmála. Hluti af sóknaráætlun verður að efla starf Íslands í loftslagsmálum á alþjóðavísu.

  • Samstöðuhópur um nýtingu jarðhita á heimsvísu, Global Geothermal Alliance: Global Geothermal Alliance verður formlega sett á stofn í París í desember. Ísland ásamt IRENA, alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku eiga frumkvæði að stofnun hópsins sem mun tala fyrir nýtingu jarðhita á heimsvísu í stað jarðefnaeldsneytis, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um er að ræða vettvang ríkja, stofnana og fyrirtækja og mun IRENA, annast umsjón.
  • Loftslagsmál og norðurslóðir: Stefnt verður að því að efla þátttöku Íslands í starfi Norðurskautsráðsins þar sem unnið er að verkefnum tengdum loftslags- og umhverfisbreytingum á norðurslóðum. Meðal annars er áætlun um minnkun losunar á sóti og metani, rannsóknir á áhrifum hlýnunar af völdum loftslagsbreytinga á vistkerfi hafsins og efling vöktunar og rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Ísland tekur við formennsku í ráðinu árið 2019.
  • Græni loftslagssjóðurinn: Ísland mun leggja fram 1 milljón Bandaríkjadala í Græna loftslagssjóðinn árin 2016-2020 sem verður helsti sjóður í heiminum til framtíðar til loftslagstengdra verkefna.
  • Framlög til loftslagsvænnar þróunaraðstoðar: Ísland mun halda áfram stuðningi við loftslagstengd verkefni og sjóði sem varða þróunarríkin þ.á.m. jarðhita-, landgræðslu-, sjávarútvegs- og jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, jarðhitasamstarf Íslands og Alþjóðabankans í Austur-Afríku o.fl. Einnig verður landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna styrktur sérstaklega til þess að halda námskeið í þróunarríkjum sem berjast gegn eyðimerkurmyndun.

Styrking innviða
Sóknaráætlun og auknar kröfur í loftslagsmálum kalla á styrkingu innviða við að halda utan um málaflokkinn. Miklir efnahagslegir og pólitískir hagsmunir eru undir fyrir Ísland í loftslagsmálum, auk umhverfishagsmunanna, sem kalla á gott bókhald og spár um losun og kolefnisbindingu og öfluga greiningu á hagkvæmni og árangri við minnkun nettólosunar. Undir þessum lið eru einnig verkefni sem miða að því að efla starf sem miðar að því að greina afleiðingar loftslagsbreytinga og miðla þeim til almennings og þeirra sem bera ábyrgð á viðbrögðum við breytingum á náttúrufari.

  • Vísindaskýrsla um afleiðingar loftslagsbreytinga: Vísindaleg úttekt á afleiðingum loftslagsbreytinga á náttúru, efnahag og samfélag á Íslandi verður tekin saman og gefin út haustið 2016. Stefnt er að því að skýrslan verði viðamesta úttekt á líklegum áhrifum loftslagsbreytinga til þessa. Sérstakur kafli verður í skýrslunni um súrnun hafsins og líklegar afleiðingar hennar.
  • Aðlögun að loftslagsbreytingum: Sett verður á fót verkefni, stýrt af Veðurstofu Íslands, um hvernig íslenskt samfélag getur brugðist við áhrifum loftslagsbreytinga hér á landi. Þegar sjást ýmis merki langtímabreytinga á loftslagi og spár gera ráð fyrir áframhaldandi breytingum, sem bregðast þarf við. Aðlögun að loftslagsbreytingum snýst um að draga úr því tjóni vegna líklegra breytinga og nýta þjóðinni til hagsbóta þær breytingar sem gefa tilefni til slíks. Sums staðar er þegar tekið tillit til breytinga á náttúrufari í framtíðinni, en það hefur ekki verið gert á heildstæðan hátt til þessa. Verkefnið mun felast m.a. í samhæfingu á rannsóknum og eftirliti á náttúrufarsbreytingum, gerð sviðsmynda um líklega þróun loftslags á Íslandi og úttekt á aðlögunarþörf í samráði við hagsmunaaðila vegna afleiðinga loftslagsbreytinga hér á landi, s. breytinga á sjávarstöðu, gróðurfari og jöklum. Fagráð verður skipað til að tryggja samhæfingarhlutverk verkefnsins.
  • Bætt bókhald og spár um losun og kolefnisbindingu: Bæta þarf losunarbókhald Íslands, sérstaklega á sviði landnotkunar og kolefnisbindingar í gróðri og jarðvegi og búa það undir nýjar og auknar kröfur í væntanlegu Parísarsamkomulagi og í evrópskum reglum sem Ísland mun þurfa að taka upp. Gert verður samkomulag til tveggja ára við Landbúnaðarháskóla Íslands um bætt bókhald varðandi landnotkun. Þá þarf að gera reglulegar spár um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda skv. nýjum kröfum Loftslagssamnings S.þ. Slíkar spár hafa tvívegis verið gerðar hér á landi, en nýjar kröfur kveða á um örari spár með bættri aðferðarfræði. Spár auðvelda einnig mat á hagkvæmustu leiðum við að standa við kröfur um minnkun nettólosunar. Tryggt verður að slíkar spár verði gerðar framvegis og samþættar orkuspá og annari skyldri vinnu eins og kostur er.
  • Jöklar Íslands – Lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar: Loftslagsbreytingar eru að mörgu leyti ósýnilegur vandi, þótt áhrifa þeirra gæti nær alls staðar á jörðinni. Segja má að jöklar og búskapur þeirra sé kannski augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum, því þeir stækka eða hopa í takt við hitastig, úrkomu og fleiri þætti, sem flestir tengjast loftslagi. Íslenskir jöklar hafa rýrnað undanfarin ár og er gert ráð fyrir rýrnunin muni jafnvel verða hraðari í framtíðinni. Hvergi í Evrópu og óvíða í heiminum er jafn greiður aðgangur að jöklum og jökulsporðum og á Íslandi, ekki síst við Vatnajökul, þar sem er stærsti þjóðgarður í vestanverðri Evrópu. Búskapur jökla á Íslandi hefur mikið fræðslugildi fyrir Íslendinga, ferðamenn og heimsbyggðina. Jökulsporðar hafa verið vaktaðir um langa hríð, en samt er búskapur þeirra og afrennsli ekki nægjanlega þekkt. Bætt vöktun á búskap jökla getur skilað ávinningi varðandi nýtingu vatnsafls, eftirlit með náttúruvá og á fleiri sviðum, en í þessu verkefni er sérstaklega horft til að niðurstöðurnar verði gerðar sýnilegar og nýttar til almannafræðslu, í ferðaþjónustu og sem framlag Íslands til alþjóðlegs samstarfs um mælingar á jöklabreytingum. Vöktun jökla verður efld m.a. með nýtingu reglulegra gervihnattarmælinga og þátttöku í hnattrænu verkefni Alþjóða veðurmálastofnunarinnar (WMO) um vöktun á jöklum, ís og snjó. Stefnt er að því að niðurstöður úr vöktun jökla verði gerðar sýnilegar m.a. í gestastofum þjóðgarða, sem myndu kynna jökla landsins sem eins konar síritandi mæla og lifandi kennslustofur um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Þessi tenging vísindalegrar vöktunar, fræðslu og ferðaþjónustu gæti vakið mikla athygli í viðbót við áðurnefndan ávinning.

 

Spurningar og svör um sóknaráætlun og loftslagsmál almennt

•  Hvað felst í sóknaráætlun í loftslagsmálum?
Með sóknaráætlun kynnir Ísland efldar aðgerðir til að takast á við loftslagsvandann á sama tíma og ríki heims ætla að taka höndum saman um nýtt samkomulag þess efnis. Sett er aukið fé til aðgerða í loftslagsmálum og lagður grunnur að samstarfsverkefnum með atvinnulífinu og fleiri aðilum. Aðgerðir miða að minnkun losunar og eflingu kolefnisbindingar heima fyrir, en einnig er áhersla á alþjóðleg verkefni, þar sem loftslagsvæn tækni og þekking Íslendinga kemur að gagni. Sett er á fót markvisst starf til að bregðast við margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Sóknaráætlun er hugsuð sem efling til þriggja ára, en verkefni sem sett eru á fót undir merkjum hennar eiga að hjálpa Íslandi að ná markmiðum til 2030, sem tilkynnt hafa verið til Loftslagssamningsins fyrir Parísarfundinn.
•  Mun sóknaráætlun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
Með sóknaráætlun er settur nýr kraftur í verkefni, sem mörg eiga að skila minni losun og meiri kolefnisbindingu en verið hefði að óbreyttu. Í sumum verkefnum eru sett fram töluleg viðmið, s.s. í vegvísi um minnkun losunar í sjávarútvegi, sem unninn verður af Hafinu, samstarfsvettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og háskóla. Einnig verður hægt að meta líklega kolefnisbindingu vegna aukins fjármagns í skógrækt og landgræðslu þegar nánari útfærsla á framkvæmd liggur fyrir. Önnur verkefni eru þess eðlis að erfitt er að meta árangur þeirra tölulega hvað varðar minnkun nettólosunar á Íslandi. Enn erfiðara er að meta árangur alþjóðlegra verkefna sem Ísland mun taka þátt í, þótt mögulega skili t.d. verkefni á sviði jarðhita erlendis meiru en nokkurt annað framtak Íslands í loftslagsmálum.
•  Eru sett fram ný markmið um heildarlosun Íslands í sóknaráætlun?
Sóknaráætlun inniheldur verkefni sem munu hjálpa Íslandi til að mæta hertum kröfum um minnkun losunar. Þar eru hins vegar ekki sett fram ný töluleg markmið um heildarlosun. Ísland hefur þegar tilkynnt markmið sitt til 2030 fyrir Parísarfundinn: 40% minnkun á nettólosun í samvinnu við ríki ESB og Noreg. Ríkin 30 munu útfæra þetta markmið nánar sín á milli, væntanlega á næsta ári. Hluti af ábyrgðinni verður sett á fyrirtæki innan samevrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir. Losun utan viðskiptakerfisins verður á ábyrgð ríkja og verða sett markmið fyrir hvert ríki. Inni í því markmiði er m.a. losun frá samgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði. Upplegg Parísarfundarins er hins vegar á þann veg að ríki leggi fram sín markmið fyrir fundinn. Langflest ríki innan loftslagssamningsins hafa gert það og ná landsmarkmiðin samanlagt yfir 90% losunar í heiminum. Á Parísarfundinum er gert ráð fyrir að gengið verði frá ramma utan um þau markmið, reglur um bókhald, gegnsæi, fjárstuðning til þróunarríkja o.fl. M.ö.o. þá er ekki búist við að ríki sem hafa sent inn landsmarkmið muni setja fram ný markmið á Parísarfundinum.
•  Hvernig verður landsmarkmið Íslands útfært?
Útfærsla landsmarkmiðs liggur væntanlega fyrir á næsta ári hvað varðar Ísland og Noreg og ríkin 28 í ESB. Ísland er því á sama báti og 29 önnur Evrópuríki – staðfest er að þau verði með í sameiginlegu markmiði um minnkun losunar um 40%, en ekki er ljóst hver þeirra hlutur verður. Það liggja þó fyrir grófar reiknireglur um skiptingu losunar. Þar skiptir mestu máli að losuninni er tvískipt:

a) í losun innan viðskiptakerfis (ETS), þar sem yfir 10.000 fyrirtæki fá kvóta, og
b) í losun utan viðskiptakerfisins, þar sem ríkin 30 fá hvert um sig ákveðna hlutdeild eða kvóta.

Losunin innan ETS á að minnka um 43%, en þar bera fyrirtækin ábyrgð, ekki ríki. Hin losunin er á ábyrgð ríkja og þar er farið eftir ákveðnum reiknireglum. Þær liggja ekki endanlega fyrir né hlutfallsleg skipting á milli ríkja.
•  Hvernig tengist sóknaráætlun Parísarfundinum?
Framlagningu sóknaráætlunar fyrir Parísarfundinn er ætlað að búa í haginn fyrir væntanlegar hertar kröfur um minnkun losunar og sýna að hugur fylgir máli við tilkynningu um metnaðarfull markmið til 2030. Ísland tilkynnti um landsmarkmið sitt (INDC) í júní 2015, eins og flest ríki heims hafa gert fyrir Parísarfundinn. Ekki er krafist annars af ríkjum í París, utan að taka þátt í viðræðum og samþykkt á væntanlegu alþjóðlegu samkomulagi um minnkun losunar og aðrar aðgerðir í loftslagsmálum. Mörg ríki munu þó nota tækifærið og tilkynna um aðgerðir til að uppfylla markmið sín. Sóknaráætluninni er ætlað að koma til móts við slík sjónarmið.
•  Hvernig er tekið tillit til orkufreks iðnaðar í markmiðssetningu Íslands?
Orkufrekur iðnaður ber kvaðir um minnkun losunar innan evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir (ETS), sem Ísland tekur þátt í skv. ákvæðum EES-samningsins. Þar fá fyrirtæki úthlutað heimildum, sem duga fyrir hluta losunar, en þurfa að kaupa það sem upp á vantar ef þau geta ekki dregið úr losun. Fyrirtæki sem geta minnkað losun meira en heimildir leyfa geta hins vegar selt þær heimildir. Með þátttöku í ETS búa íslensk orku- og iðnfyrirtæki við sambærilegar reglur um losun og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Losun á tonn af framleiddu áli á Íslandi er um 1,8 tonn CO2-ígilda, ef losun vegna orku er talin með, sem er sjöfalt minni en losun að meðaltali á heimsvísu sem er 11,3 tonn á hvert framleitt tonn af áli.
•  Er hægt að halda áfram uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi í ljósi yfirlýsinga um minnkun losunar?
Orkufrekur iðnaður fellur undir viðskiptakerfi ESB, eins og nefnt er hér að framan. Það þýðir að ný fyrirtæki á sviði orkufreks iðnaðar, sem hyggjast starfa hér á landi, þurfa að afla sér heimilda innan kerfisins, eins og fyrirtæki sem starfa hér fyrir. Þetta þýðir að áfram er að byggja upp orkusækna atvinnustarfsemi á Íslandi án þess að það hafi áhrif á losunarkvóta Íslands, svo lengi sem reglur ETS eru uppfylltar. Að sama skapi myndi minnkun losunar vegna minni framleiðslu, loftslagsvænni tækni eða niðurlagningar starfsemi sem fellur innan ETS ekki koma Íslandi til tekna.
•  Í gildi er aðgerðaáætlun um minnkun nettólosunar – kemur sóknaráætlun í staðinn fyrir hana?
Aðgerðaáætlun til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda var samþykkt 2010 og gildir til 2020. Eftirfylgni þessarar áætlunar heldur áfram. Henni er ætlað að stuðla að því að íslensk stjórnvöld geti staðið við skuldbindingar sínar á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar 2013-2020. Sett eru viðmið fyrir þróun losunar í einstökum greinum og í heild til 2020 og á að reyna að halda losun innan þeirra marka með ýmsum aðgerðum. Sóknaráætlun er víðtækari og nær yfir alþjóðlegt samstarf Íslands í loftslagsmálum og eflingu innviða, auk aðgerða til að draga úr nettólosun. Sóknaráætlun mun auðvelda Íslendingum að standa við markmið sín til 2020 og einnig að mæta væntanlegum hertum kröfum til 2030.
•  Hvað segir sóknaráætlun um áform um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eða tryggja kolefnishlutleysi Íslands?
Það er yfirlýst stefna Íslands að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, en engin tímasetning hefur verið sett á hvenær henni á að ljúka að fullu. Segja má að Ísland hafi nær eitt ríkja náð þeim áfanga að hætta nær með öllu notkun jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu, þ.e. við hitun og framleiðslu rafmagns. Verkefnið framundan er ekki síst að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi. Skref eru stigin til sóknar í þeim geirum m.a. með verkefnum um innviði fyrir rafbíla og vegvísum um minni losun í sjávarútvegi og landbúnaði. Kolefnishlutleysi er nokkuð flókið hugtak og tekur til fleiri þátta, m.a. landnotkunar. Efling skógræktar og landgræðslu bindur kolefni úr andrúmslofti á móti losun gróðurhúsalofttegunda og er mikilvægur þáttur á leið til kolefnishlutleysis.
•  Hver er gildistími sóknaráætlunar?
Sóknaráætlun er sett til þriggja ára. Henni er ætlað að setja aukinn kraft í margvíslegt starf sem tengist loftslagsmálum og að loknum gildistímanum má taka ákvörðun um framhald aðgerða. Reiknað er með að uppfæra þurfi heildstæða aðgerðaáætlun til að taka tillit til nýrra skuldbindinga um losun fram til 2030 í kjölfar Parísarfundarins. Aðgerðir innan sóknaráætlunar munu hjálpa Íslandi til þess og skila ávinningi í framtíðinni langt fram yfir næstu þrjú ár, þótt aðgerðir nú og fyrirhugaðar fjárveitingar miði við það tímabil.
•  Er Ísland loftslagsvænt ríki?
Ísland hefur nær eitt ríkja náð að því marki að 100% af framleiðslu rafmagns og hitunar kemur frá endurnýjanlegri orku. Ein þekktasta viðleitnin til að meta ríki út frá stöðu í loftslagsmálum er úttekt umhverfisverndarsamtakanna CAN og Germanwatch, sem kynna árlega svokallaða Frammistöðuvísitölu loftslagsmála (Climate Performance Index). Þar eru ýmsir þættir lagðir til grundvallar, s.s. losun gróðurhúsalofttegunda og þróun hennar, hlutur endurnýjanlegrar orku og stefnumótun í loftslagsmálum. Ísland var í 10. sæti á lista samtakanna tvö síðustu ár, af 58 ríkjum alls.
•  Hvernig hefur þróunaraðstoð verið beint til verkefna tengdum loftslagsmálum
Samkvæmt aðferðafræði Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) nýttust 54% af framlögum Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2014 til umhverfismála og 28% til verkefna sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]