Categories
Fréttir

Sigurður Ingi á fundum Evrópuráðsins

Deila grein

24/03/2023

Sigurður Ingi á fundum Evrópuráðsins

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flutti ávarp á ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna í Evrópuráðinu í Strassborg í gær. Þar kynnti hann áherslur Íslands í formennsku sinni í Evrópuráðinu, ítrekaði mikilvægi sveitar- og héraðsstjórnaþingsins, ræddi meðal annars samráðsgátt íslenskra stjórnvalda, mikilvægi grænna skrefa stjórnvalda og helstu áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir á sveitarstjórnarstigi. Að lokum svaraði Sigurður Ingi spurningum fulltrúa þingsins og tók þátt í umræðum um fyrirhugaðan leiðtogafund Evrópuráðsins sem fer fram í Reykjavík 16.-17. maí.

Sigurður Ingi fundaði jafnframt með Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, og Leendert Verbeek, forseta sveitar- og héraðsstjórnarþingsins. Á báðum fundum var rætt um formennsku Íslands í Evrópuráðinu, leiðtogafundinn í Reykjavík og mikilvægi vettvangs sveitar- og héraðsstjórna í Evrópuráðinu. Ráðherra átti jafnframt fund með Attila-Zoltán Cseke, ráðherra þróunarmála, innviða og stjórnsýslu í Rúmeníu þar sem áskoranir vegna eldgosa og skipulagsmál voru til umræðu.  

Á þriðjudagskvöld opnaði Sigurður Ingi tónleika í dómkirkju Strassborgar en þeir eru hluti af menningardagskrá formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Þar fluttu íslenski tenórinn Benedikt Kristjánsson, þýski sembal- og orgelleikarinn Elina Albach, og ítalski slagverksleikarinn Philipp Lamprecht sérstaka endurgerð af Jóhannesarpassíu Bachs.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu 

Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. Helsta markmið formennskunnar verður að efla grundvallargildi Evrópuráðsins – lýðræði, réttarríkið og mannréttindi. Þar að auki eru formennskuáherslur Íslands umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.

Þetta er í þriðja sinn sem Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu frá inngöngu árið 1950 en áður leiddi Ísland starfsemina 1955 og 1999. Formennskunni lýkur formlega með leiðtogafundi í Reykjavík sem forsætis- og utanríkisráðherra boða til 16.-17. maí nk. Um er að ræða fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins frá upphafi. Hann verður fjölmennasti leiðtogafundur og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Nánari upplýsingar um formennsku Íslands í Evrópuráðinu má finna í formennskubæklingi Íslands.

Um Evrópuráðið

46 ríki með um 700 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu (e. Council of Europe, CoE). Markmið ráðsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríki í álfunni, og jafnframt að efla lífsgæði Evrópubúa. Evrópuráðið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og koma með því í veg fyrir annað stríð í álfunni. Evrópuráðið vinnur á grundvelli alþjóðasamninga sem gerðir eru á vettvangi ráðsins. Ráðið vinnur m.a. að mannréttindamálum, lýðræðismálum, réttarfarsmálum, jafnrétti, tjáningarfrelsi, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum og mennta- og menningarmálum. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga á ýmsum sviðum sem hafa jafnframt haft áhrif í öðrum heimshlutum. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem er ein af lykilstofnunum á sviði mannréttinda í heiminum, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu. 

Heimild: stjr.is