Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um áhyggjur Grindvíkinga vegna yfirvofandi eldgoss og biðar eftir aðgerðum stjórnvalda. Hann sagði að þingmenn Suðurkjördæmis hefðu átt ágætis fund með bæjarstjórn Grindavíkur í kjördæmaviku og að þingflokkur Framsóknar hefði nýtt þingflokksfundadaginn til heimsóknar í Grindavík til að hitta íbúa bæjarins.
Hann sagði að atvinnulíf í Grindavík væri í blóma, með 750-800 manns starfandi þar daglega og yfir 120 manns sem gista í bænum.
„Tónninn sem ég heyrði hins vegar á báðum þessum fundum var að upplifunin væri, allt frá kosningum, svolítil bið. Það væru skilaboðin, jafnvel eftir fund með hæstv. forsætisráðherra, að það þyrfti að bíða. Ég skil mjög vel að fólkið í Grindavík sé farið að hafa áhyggjur af því að það sé ekki hægt að bíða endalaust,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi benti á að ríkið eigi tæpar 1.000 íbúðir í Grindavík og að fólk hafi áhuga á að flytja þangað. Hann nefndi stofnun hollvinasamtakanna Járngerðar, þar sem íbúar sögðu: „Treystið okkur.“ Hann spurði forsætisráðherra hvort stjórnvöld væru farin að ganga of langt í forræðishyggjunni.
„Hvar megum við koma að? Í vinnu stjórnvalda er verið að vinna sviðsmyndagreiningar með sérfræðingum, jafnvel erlendum aðilum, en þau spyrja: Hvar erum við? Erum við farin að ganga of langt í forræðishyggjunni? Það er það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Fólkið segir: Treystið okkur. Við erum vön að fylgja veðurspám og sérfræðingum Veðurstofunnar. Við erum vön að fylgja þeim tilmælum sem koma. Við kunnum þetta. Við þekkjum bæinn okkar og sprungurnar betur en flestir aðrir. Þau okkar sem eru tilbúin að setjast að og prófa, megum við prófa? Bannið okkur ekki. Treystið okkur til að taka þátt í samtalinu. Hvert er plan ríkisstjórnarinnar?“