Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, svaraði fyrirspurn um símenntun og fullorðinsfræðslu á Alþingi í vikunni. Fyrirspyrjandi var Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður.
„Þörfin á símenntun og endurmenntun er sífellt að aukast vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað í okkar samfélagi með sjálfvirknivæðingu og öðru slíku. Og svo er það líka þannig að málefni líðandi stundar eru að breytast talsvert mikið, m.a. vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað varðandi loftslagsmálin. Samfélög eru að verða sífellt meðvitaðri um það sem er að gerast og þau sem taka á þessum málum á skilvirkan og uppbyggilegan hátt mun vegna betur er varðar samkeppnishæfni þjóða,“ sagði Lilja Dögg.
Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 10. desember 2018.
„Hv. þingmaður spurði hvaða áform væru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarstöðva, ekki síst á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á vegum ráðuneytisins er nú verið að undirbúa frumvarp til laga um nám fullorðinna og undir þá vinnu fellur endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu. Þau lög taka sérstaklega til fullorðinna sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi og afmarkast við starfsemi sem ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.
Hugtakið fullorðinsfræðsla nær yfir mun stærri hóp. Þessi víðari nálgun er en megin ástæða þess að ákveðið var að hefja vinnu við ný heildarlög um nám fullorðinna og um leið einfalda regluverkið og breyta hugtakarammanum þannig að lögin ávarpi stærra mengi en ella. Þannig getum við enn betur styrkt stoðirnar undir það að allir búi yfir nægilegri grunnfærni til að lifa og starfa og mæta áskorunum dagsins í dag. Ég legg mikla áherslu á það að heyra rödd hagsmunaaðila í þessum málaflokki. Þess vegna skipaði ég 20 manna samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun þessa árs og gildir skipunin til fjögurra ára,“ sagði Lilja Dögg.
„Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi mál á dagskrá þingsins. Þau skipta máli er varðar framvindu málaflokksins og við viljum efla grunnfærni sem flestra á íslenskum vinnumarkaði svo að hægt sé að efla hann,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Categories
Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinna
13/12/2018
Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinna