Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði áherslu á í störfum þingsins að ábyrgir viðskiptahættir og sjálfbær þróun væru „lykilatriði fyrir framtíð íslenskra fyrirtækja“ og að þau yrðu að byggja rekstur sinn á langtímahugsun þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum. Hann sagði að „undanfarið hefur mátt greina ákveðna loftslagsþreytu meðal almennings og fyrirtækja“ og að umræðan um sjálfbærni gæti virst flókin, en það gerði mikilvægi hennar ekki minna.
Þórarinn Ingi benti á að fyrirtæki ættu að horfa inn á við og festa sjálfbærni í sessi sem samkeppnisforskot. „Hún felur einfaldlega í sér að fara vel með það sem okkur er trúað fyrir, fólk, náttúru og verðmæti framtíðarinnar um leið og fyrirtækin skila hagnaði og styrkja samkeppnishæfni sína,“ sagði hann.
Hann gagnrýndi jafnframt að hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar væru enn ókomnar og að óvissa í efnahagsmálum færi vaxandi. Af því leiddi enn ríkari þörf á skýrri stefnu og sjálfbærri verðmætasköpun, sem að hans mati ætti að verða lykilþáttur í nýrri atvinnustefnu stjórnvalda.
Þórarinn Ingi hvatti stjórnvöld til að nýta alþjóðlega vettvanga sem styðja fyrirtæki í umbótum á þessu sviði. Hann nefndi sérstaklega UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífs um ábyrga starfshætti, sem nýlega hafi opnað skrifstofu hér á landi. „Um er að ræða áhrifamesta vettvang heims fyrir ábyrga, hagkvæma og sjálfbæra viðskiptahætti,“ sagði Þórarinn Ingi og beindi erindi sínu m.a. til forsætisráðuneytisins sem fer með verkefnið „Sjálfbært Ísland“.
Þórarinn Ingi minnti á væntingar ungu kynslóðarinnar til vinnustaða: „Unga kynslóðin vill umfram allt vinna fyrir fyrirtæki sem hafa tilgang, sýna ábyrgð og horfa til framtíðar.“
„Ég vil óska UN Global Compact innilega til hamingju með að hafa opnað skrifstofu hér á landi,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.
