Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi á Alþingi þau miklu áhrif sem sjávarflóð höfðu nýlega á Suðurnesjum. Hún benti á að slíkar náttúruhamfarir séu orðnar sífellt tíðari og lagði áherslu á loftslagsbreytingar sem aðalorsökina. Hærra sjávarborð væri afleiðing bæði hlýnunar hafsins og bráðnunar jökla, en að áhrifin væru önnur hér á landi, sérstaklega vegna nálægðar Íslands við Grænland.
„Við sjáum þegar slíka atburði eiga sér stað erlendis, eins og í New York vegna sjávarflóða og Kaliforníu vegna skógarelda, þá draga tryggingafélög sig gjarnan út af þeim svæðum sem verða verst úti,“ sagði Halla Hrund.
Í ljósi þessa kallaði hún eftir framtíðarsýn stjórnvalda og spurði hvort kominn væri tími á að stofna sérstakan sjóð til að mæta afleiðingum sjávarflóða. „Við þurfum að skoða hvort það sé nauðsynlegt að stofna sérstakan viðlagasjóð, sambærilegan þeim sem nú þegar tekur á skriðuföllum og snjóflóðum.“
Halla Hrund benti sérstaklega á áhættusvæði eins og Suðurnes, Seltjarnarnes og Reykjavík sem gætu staðið frammi fyrir aukinni tíðni flóða í framtíðinni.