Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins það framfaraskref að gera afurðastöðvum möguleika á að sameinast, ná fram hagræða og þannig að lækka framleiðslukostnað.
„Sívaxandi innflutningur matvæla frá erlendum stórverksmiðjum hefur skapað íslenskum landbúnaði erfiðar aðstæður í geira sem hafði takmörkuð tækifæri til frekari hagræðingar ef markmiðið á enn að vera að viðhalda ákveðnum gæðum og starfa í samræmi við reglur og staðla,“ sagði Halldóra.
Samkeppnin er við útlönd
„Nú þegar er verið að flytja inn meira að segja lambakjöt til Íslands og í auknum mæli verða neytendur varir við notkun á erlendum afurðum í hefðbundnum íslenskum matvælum.
Hvernig getum við brugðist við þessum aðstæðum? Jú, með því að gera innlendum aðilum kleift að sameinast, hagræða í sinni starfsemi og með því að lækka framleiðslukostnað og um leið verð í þágu þeirra og neytenda.“
Búvörulögum hefur verið breytt svo að framleiðendafélögum og afurðastöðvum í kjötiðnaði verði heimilt að sameinast og eiga með sér aukið samstarf.
„Í þessu felst almenn undanþága frá samkeppnislögum sem nær til sameininga og jafnframt samninga milli framleiðendafélaga varðandi verkaskiptingu og aðrar aðgerðir sem miða að því að halda kostnaði niðri. Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn. Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag en ef stjórnvöld halda þessari vegferð áfram þá getum við horft áfram veginn bjartsýnni en áður,“ sagði Halldóra að lokum.
Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Í gær var stigið mikið framfaraskref í þágu innlendrar matvælaframleiðslu. Skrefið var stigið hér í þessum sal. Sívaxandi innflutningur matvæla frá erlendum stórverksmiðjum hefur skapað íslenskum landbúnaði erfiðar aðstæður í geira sem hafði takmörkuð tækifæri til frekari hagræðingar ef markmiðið á enn að vera að viðhalda ákveðnum gæðum og starfa í samræmi við reglur og staðla. Samkeppnin hefur nefnilega færst frá því að vera milli íslenskra bænda sem fylgja sömu stöðlum yfir í að vera íslenskir bændur á móti evrópskri framleiðslu þar sem lögmálin eru allt önnur. Nú þegar er verið að flytja inn meira að segja lambakjöt til Íslands og í auknum mæli verða neytendur varir við notkun á erlendum afurðum í hefðbundnum íslenskum matvælum.
Hvernig getum við brugðist við þessum aðstæðum? Jú, með því að gera innlendum aðilum kleift að sameinast, hagræða í sinni starfsemi og með því að lækka framleiðslukostnað og um leið verð í þágu þeirra og neytenda. Í gær var framfaraskref stigið í þá áttina. Búvörulögum var breytt á þann veg að framleiðendafélögum og afurðastöðvum í kjötiðnaði var gert heimilt að sameinast og eiga með sér aukið samstarf. Í þessu felst almenn undanþága frá samkeppnislögum sem nær til sameininga og jafnframt samninga milli framleiðendafélaga varðandi verkaskiptingu og aðrar aðgerðir sem miða að því að halda kostnaði niðri. Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn. Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag en ef stjórnvöld halda þessari vegferð áfram þá getum við horft áfram veginn bjartsýnni en áður.“