Categories
Fréttir

Skóflustunga tekin að þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Deila grein

14/08/2016

Skóflustunga tekin að þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri þjóðgarðsmiðstöð fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul í gær á Hellissandi. Þá setti ráðherra málþing um framtíð Þjóðgarðsins í kjölfarið.
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2001 og fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Hönnun hefur því legið fyrir um nokkurt skeið og er byggingunni ætlað að uppfylla allar þarfir þjóðgarðsmiðstöðvar, bæði hvað varðar upplýsingagjöf, þjónustu og fræðslu til gesta, auk starfsaðstöðu fyrir rekstur þjóðgarðsins sjálfs.
""
Við athöfnina sagði ráðherra að með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar yrðu innviðir þjóðgarðsins Snæfellsjökuls styrktir, þetta yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og að með henni yrði þjóðgarðurinn betur í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring.
Yfirskrift málþingsins sem haldið var í Röst á Hellissandi í kjölfar skóflustungunnar var „Þjóðgarður á leið til framtíðar“ en auk ráðherra tóku þar til máls, Kristinn Jónasson, bæjastjóri Snæfellsbæjar, Sturla Böðvarsson, bæjastjóri Stykkishólms, Ragnhildur Sigurðardóttir, Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, Kristín Huld Sigurðardóttir, Minjastofnun, Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður og Sæmundur Kristjánsson, sagnaþulur og svæðisleiðsögumaður.
Í ávarpi sínu beindi ráðherra sjónum að ""fjölbreyttri náttúru og menningarminjum á Snæfellsnesi, mikilvægi þessa að vernda og tryggja sjálfbæra nýtingu jafnframt því að draga fram að þjóðgarðssvæðið byði upp á fjölbreytta möguleika til útivistar og ferðaþjónustu. „Það er brýnt að huga tímanlega vel að skipulagi til að dreifa ferðamannastraumnum með spennandi ferðamannaleiðum og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni,“ sagði Sigrún.
 
 

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is