Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, gagnrýndi skort á stuðningi við Suðurnes í ræðu í störfum þingsins. Hún spurði hvort svæðið væri sniðgengið og ef svo væri, hvers vegna. „Við verðum að spyrja: Er verið að sniðganga Suðurnes, og ef svo er, hvers vegna? Ef ekki, af hverju eru þessi tækifæri þá ekki nýtt?“ sagði hún.
Menntunarstigið það lægsta á landinu
Fida lagði sérstaka áherslu á menntamál og benti á að menntunarstigið á Suðurnesjum sé það lægsta á landinu og brottfall úr framhaldsskólum hátt. „Nemendur af erlendum uppruna fá ekki þann stuðning sem þau þurfa. Íslenskukennslan er ófullnægjandi. Það er engin móttökuleið til að aðlagast skólakerfinu. Þessi hópur týnist í kerfinu og við látum það gerast,“ sagði hún.
Fjármagn skilar sér ekki
Fida benti einnig á að fjármagn skili sér ekki á svæðið og lítil og meðalstór fyrirtæki fái ekki tækifæri til að vaxa. Hún sagði að traustið vanti, en framtíðarsýn sé til staðar. „Við á Suðurnesjum eigum auðlindir, við eigum hugmyndir, við eigum mannauð og við eigum Keili. Keilir er lykillinn að því að tengja saman menntun og atvinnulíf, sérstaklega í tækni og nýsköpun, en verkefnið þeirra bíður svars í ráðuneytinu,“ sagði hún.
Áskorun til ríkisstjórnarinnar
Að lokum skoraði Fida á ríkisstjórnina að hætta að horfa fram hjá Suðurnesjum, styðja við Keili, stækka FS, fjárfesta í menntun og stuðla að fjölbreytileika og sjálfbæru atvinnulífi. „Tækifærin eru á Suðurnesjum og við þurfum pólitískan vilja til að það verði að veruleika,“ sagði hún.