„Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því sérstaklega hér að Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin hafi samþykkt á fundi sínum þann 14. mars að skrifstofa nefndarinnar flytjist frá Þýskalandi til Akureyrar um næstu áramót. Þessa ákvörðun má meðal annars rekja til þess að ríkisstjórn Íslands ákvað um miðjan febrúar að tillögu forsætisráðherra að veita fjármagn til reksturs hennar næstu fimm árin.
Markmið Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknastofnanir og samtök frá 23 löndum og hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að nefndinni fyrir hönd Íslands.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til Norðurskautsráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum. Ég hef haft tækifæri til að fylgjast með þessu starfi og kynnast því í gegnum störf mín í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og veit að það skiptir máli.
Skrifstofan verður mikilvæg viðbót við það öfluga norðurslóðasamfélag eða norðurslóðaklasa sem nú er á Akureyri. Þar má nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og tvær af skrifstofum Norðurskautsráðsins og þar starfar einnig fyrirtæki sem er sérhæft við söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um norðurslóðir, Arctic Portal, og Norðurslóðanet Íslands.
Því má vænta enn öflugra starfs að málefnum norðurslóða á Akureyri. Íslenskt vísindasamfélag fær aukinn aðgang að öflugu tengslaneti vísindamanna á norðurslóðum og líklegt er að áhugi erlendra vísindamanna á rannsóknasamstarfi við Íslendinga aukist.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.
Categories
Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar
18/03/2016
Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar