Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ekki hafa náð að lækka verðbólgu þrátt fyrir að það sé hennar stærsta verkefni. Traust markaðarins á aðgerðum er horfið. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti fimm sinnum vegna fyrri jákvæðrar þróunar, en skortur á samstilltum aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnar síðastliðið vor hefur gert stöðuna erfiðari.
„Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar er að ná verðbólgunni niður og þar hefur henni mistekist. Sleggja Samfylkingarinnar, sem átti að lemja niður verðbólgu og vexti, hefur reynst innantómt slagorð.
Frá því í október hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti fimm sinnum, úr 9,25% niður í 7,5%. Sú lækkun byggðist svo sannarlega ekki á verkum núverandi ríkisstjórnar – heldur á því að við vorum á réttri leið og þá var almenn bjartsýni um að hægt væri að ná tökum á verðbólgunni.
Ég kallaði eftir því á Alþingi í vor, þegar óveðurskýin birtust, að ríkisstjórnin fundaði án tafar með hagsmunaaðilum um stöðu og horfur í baráttunni við verðbólguna. Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til þess. Við þurfum í sameiningu að ráðast gegn þeirri vá sem verðbólgan er. Staðan sýnir okkur að hyggilegt hefði verið að blása til sóknar síðastliðið vor – þá værum við betur í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Nú blasir við að stefna ríkisstjórnarinnar sem m.a. kemur fram í ríkisfjármálaáætlun og öðrum aðgerðum – eða aðgerðaleysi. Verðbólguvæntingar og traust markaðarins á því að hún ráði við verkefnið er einfaldlega ekki til staðar. Við því þarf að bregðast.“
