„Við lifum á ótrúlegum tímum, fordæmalausum í nútímasamfélagi, og við skulum vona að það sem þjóðin er að fara í gegnum núna muni styrkja hana og verða til þess að efla samhug og samvinnu fólks í framtíðinni — sem verður björt, því hef ég alla vega fulla trú á,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„En hvað er það sem við getum treyst á í þessum erfiðu aðstæðum? Eitt af því er okkar eigin landbúnaðarframleiðsla. Það er gott að vita til þess að hér er framleiðsla á mjólk, kjöti, eggjum og grænmeti sem við getum treyst á og á að vera í boði fyrir neytendur, og ekki þarf að treysta fullkomlega á aðrar þjóðir í því. Mjólk, egg og grænmeti er framleitt hér á hverjum degi og kjötbirgðir eru góðar,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Afurðastöðvar og bændur munu gera sitt besta til að tryggja að dreifing matvæla verði eins hnökralaus og hægt er þannig að tryggja megi að afurðir komist á markað. Einnig er áhugavert að sjá að verslunin er farin að kalla eftir styrkingu landbúnaðarkerfisins í þessu ástandi hvað varðar innlenda framleiðslu, til að mynda í grænmeti. Fram kom á vef Morgunblaðsins í morgun að verslunarfyrirtækið Samkaup hefði skorað á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ýta undir innlenda grænmetisframleiðslu í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna ástandsins. Leiddar eru líkur að því í bréfi þessu, samkvæmt fréttinni, að grænmetisframleiðsla í heiminum muni dragast saman og nú þegar séu tafir á flutningsleiðum.“
„Þarna er sleginn nýr tónn hjá versluninni og hún er greinilega tilbúin að ganga í lið með bændum og fólkinu í landinu. Sá sem hér stendur lýsir hér með yfir stuðningi við þessar hugmyndir Samkaupa. Það á að nota tækifærið núna og inn í framtíðina og efla innlenda framleiðslu þjóðinni allri og landbúnaði til heilla,“ sagði Þórarinn Ingi.