Sveitarfélög standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum áskorunum sem þarf að mæta með víðtækum aðgerðum. Þetta kom fram hjá Stefáni Vagni Stefánssyni, alþingismanni, sem ræddi stöðu sveitarfélaganna í störfum þingsins. Stefán Vagn benti á að erfiðlega hefði gengið að finna lausnir sem báðir aðilar, ríki og sveitarfélög, gætu sætt sig við til framtíðar.
Ófjármögnuð verkefni bitna á sveitarfélögum
Stefán Vagn sagði að lagafrumvörp sem samþykkt væru á Alþingi ættu að innihalda ítarlega kostnaðargreiningu fyrir sveitarfélögin, en því miður hefði framkvæmdin verið misjöfn. Sveitarfélög hefðu á undanförnum árum þurft að takast á við aukinn kostnað vegna yfirfærslu grunnskólanna og málefna fatlaðs fólks, auk þess sem málefni barna með fjölþættan vanda hafi valdið auknum útgjöldum án þess að ríkið hafi bætt það að fullu.
Leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti
Til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna lagði Stefán Vagn til að þau yrðu undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, lögbundnum verkefnum og leikskólum. Slík undanþága myndi bæta getu sveitarfélaganna til nauðsynlegrar uppbyggingar innviða.
Engin einföld lausn til
Stefán Vagn sagði enga eina töfralausn vera til staðar, heldur þyrfti að ráðast í margar aðgerðir samhliða til að skapa betra jafnvægi milli ríkis og sveitarfélaga. Hann hvatti ríkisstjórnina til að leita lausna í samvinnu við sveitarfélögin, þannig að unnt væri að tryggja stöðugleika og aukna getu til að sinna lögbundnum verkefnum.
***
Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Mig langar í ræðu minni í dag að ræða stöðu sveitarfélaga landsins og aðeins tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið til umræðu árum saman. Erfiðlega virðist ganga að ná saman um lausn til sáttar og til framtíðar fyrir báða aðila. Lagafrumvörp sem við samþykkjum hér á Alþingi á að kostnaðargreina með tilliti til kostnaðar sveitarfélaganna en allur gangur hefur verið á því að það sé gert og þeim sé bættur sá kostnaður sem af þeim hefur hlotist. Ljóst er að lagabreytingar hafa haft áhrif á kostnað sveitarfélaga á undangengnum árum svo um munar og má þar nefna yfirfærslu grunnskóla og málefni fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt. Viðbætur hafa komið til en samkvæmt sveitarfélögum landsins er það ekki nægjanlegt til að mæta þeim kostnaðarauka síðustu ára. Málefni barna með fjölþættan vanda eru annað mál sem vert er að nefna sem hefur verið sveitarfélögunum verulega kostnaðarsamt.
En hvað er til ráða, hæstv. forseti? Ég held að það sé engin ein töfralausn til í þessu máli. Við þurfum að fara í margar aðgerðir til þess að stjórnsýslustigin tvö geti náð jafnvægi sín á milli. Ein þeirra leiða er að gera sveitarfélögin undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, mögulega lögbundnum verkefnum ásamt leikskólum. Má færa fyrir því mjög sterk rök að óeðlilegt sé að sveitarfélög landsins borgi virðisaukaskatt af sínum framkvæmdum en hitt stjórnsýslustigið, ríkið, fái sinn virðisaukaskatt til baka af framkvæmdum. Með slíkri breytingu myndi hagur sveitarfélaga vænkast og geta þeirra til uppbyggingar mikilvægra innviða fyrir sín samfélög aukast verulega.“