Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar ánægjulegum árangri á mörgum sviðum á fyrsta starfsári núverandi ríkisstjórnar. Má þar nefna:
- aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna,
- hallalaus fjárlög,
- aukinn verðlagsstöðugleika,
- aukinn kaupmátt heimilanna,
- lækkun skatta,
- hækkun barnabóta,
- aukin framlög í þágu eldri borgara og öryrkja,
- aukin framlög til heilbrigðismála,
- aukin framlög til hvatningar rannsókna og nýsköpunar og þannig mætti áfram telja.
Ekki hafa þó allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið unnar með nægjanlega faglegum hætti eða hlotið eðlilegan framgang. Má þar nefna sameiningar heilbrigðisstofnana í þremur heilbrigðisumdæmum, þ.e. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi en þær sameiningar voru keyrðar í gegn án samráðs við heimamenn á hverjum stað og á grundvelli órökstuddra markmiða með einfaldri reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra. Þingið telur með ólíkindum að jafn viðamikil breyting skuli geta verið háð duttlungum og ákvörðun eins manns og lýsir yfir megnri óánægju með hvernig að þessum sameiningum var staðið. Mikilvægt er að sú þjónusta sem veitt var á þeim stofnunum sem sameinaðar voru skerðist ekki frá því sem nú er heldur verði lögð áhersla á að bæta hana þannig að landsmenn njóti sömu grunnþjónustu, óháð búsetu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði lýsir yfir andstöðu við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á matvæli en með þeirri hækkun er fyrst og fremst vegið að innlendri matvælaframleiðslu og fjöldi starfa á landsbyggðinni sett í hættu. Þeim mun meiri undrun vekur að um leið og álögur á matvæli eins og grænmeti skuli vera hækkaðar leggi fjármálaráðherra til að svokallaður sykurskattur verði felldur niður en þar er um að ræða tekjustofn sem styður við markmið um lýðheilsu og forvarnir. Hækkun virðisaukaskatts á almenn matvæli gengur einfaldlega gegn þeim er lakari hafa kjörin og stríðir gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð í íslensku þjóðfélagi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Minnir þingið þar sérstaklega á að mjög víða á landsbyggðinni búa íbúar við algjörlega óviðunandi aðstöðu hvað varðar fjarskipti, s.s. aðgengi að ljósleiðara, auk bágra samgangna og ótryggs raforkuöryggis. Auk þess sem veitt verði auknu fjármagni til vegamála í kjördæminu og áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks verði tryggt með framlagi úr ríkissjóði. Sömuleiðis verði staðið við núverandi samgönguáætlun.
Nauðsynlegt er við breytingar á húsnæðislánakerfi að gætt verði að jöfnuði er kemur að aðgengi íbúa landsins að lánsfé til íbúðakaupa og nýbygginga.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði krefst þess að orkukostnaður heimila og fyrirtækja verði jafnaður til fulls.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni sem eðlilegu mótvægi við opinbera þjónustu og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Minnir þingið í því sambandi á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar skipan Norðvesturnefndar og væntir mikils af niðurstöðum hennar. Í kjölfarið verði ráðist í sambærilegar úttektir og tillögugerðir fyrir önnur landssvæði sem glíma við fólksfækkun og veikt atvinnustig, svo sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að vel verði gert við menntastofnanir í kjördæminu og aðrar þær aðgerðir sem hækka menntunarstig íbúa landsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Fjárlög ársins 2015 eru í hróplegu ósamræmi við þessa yfirlýsingu. Þar er boðuð algerlega óásættanleg fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum og verulega þrengt að háskólunum að Bifröst, Hólum og Hvanneyri. Þingið krefst þess að samræmi verði milli orða og efnda þannig að þessar mikilvægu stofnanir geti áfram sinnt hlutverki sínu og treyst undirstöður búsetu og aukna samkeppnisfærni landsbyggðarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði heitir á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs við fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og búi greininni rekstrarlegan stöðugleika, sérstaklega verði gætt að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þingið hvetur ráðherra til að tryggja að hluti af sértæku veiðigjaldi renni beint til viðkomandi sveitarfélags. Þá skorar þingið á ríkisvaldið að efla rannsóknir á sviði fiskeldis, s.s. burðarþolsmats sem er forsenda þess að atvinnugreinin geti þróast í sátt við umhverfið.
Þingið skorar á ráðherra að bregðast nú þegar við mikilli ýsugengd á grunnslóð sem gerir mönnum ókleift að sækja þorskinn. Ýsan er nú ráðandi í afla bátanna. Ýsukvótinn er í engu samræmi við allt það magn sem er á veiðislóðinni og því nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða strax.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til rannsókna á mögulegum virkjanakostum í kjördæminu sem stuðlað geta að aukinni uppbyggingu fjölbreyttra og vel launaðra starfa. Sérstaklega skal þar horfa til Blönduvirkjunar, Hvalárvirkjunar og mögulegrar nýtingar fallvatnanna í Skagafirði. Tengigjald frá virkjunum verði afnumið í Norðvesturkjördæmi og farið verði nú þegar í hringtengingu raforku og ljósleiðara í Norðvesturkjördæmi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að vekja athygli á og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um land allt til að dreifa ferðamönnum víðar um landið og draga úr álagi á þá staði sem fjölsóttastir eru. Vinna þarf áfram að lengingu ferðamannatímabilsins svo ferðaþjónusta verði atvinnugrein sem veitt getur starfsfólki vel launaða atvinnu árið um kring og skilað enn auknum tekjum til þjóðarbúsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði minnir á grunngildi flokksins sem eru m.a. byggð á frjálslyndri hugmyndafræði þar sem leitast er við að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt unnið að hugmyndum og lausnum sem miða að því að koma til móts við heimilin, standa vörð um velferðarkerfið, skapa jákvætt umhverfi fyrir atvinnulíf, fjárfestingar og nýta tækifæri sem eru allt í kringum okkur. Með slík grunngildi að leiðarljósi er ljóst að bjartari tímar eru framundan í íslensku samfélagi.
*****
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.