Categories
Fréttir

Stjórnarandstaðan skilar auðu!

Deila grein

11/09/2024

Stjórnarandstaðan skilar auðu!

Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformanns Framsóknar, við umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra miðvikudaginn 11. september 2024:

„Virðulegur forseti, góðir landsmenn.

Við í Framsókn ætlum að vera á skóflunni í allan vetur og vinna og við ætlum að vinna meira og við ætlum að taka ábyrgð á því sem er að gerast hér og við stjórn landsins. En það er ekkert nýtt, við erum jú elsti stjórnmálaflokkur landsins sem hefur fylgt þessari þjóð ansi lengi. Og árangurinn hefur bara verið býsna góður. Við horfum alltaf til þess að reyna að leysa mál og reynum að vinna með fólki af því að við kunnum bara frekar vel við fólk og teljum að það sé lausnin að því að okkur gangi vel sem þjóð.

Sumir segja að það sé framsóknarmennska í okkur öllum, en henni þykir afskaplega vænt um sveitir landsins, elskar tungumálið sitt, styður við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og virðir menningu landsins og við teljum að það sé gríðarlega mikilvægt að halda í þessi grunngildi þjóðarinnar.

En kæru landsmenn, mig langar aðeins að víkja að málflutningi stjórnarandstöðunnar og vitna í Kópavogsskáldið Árna Pál Árnason, herra hnetusmjör. ,,En ekki er öll vitleysan eins“, með leyfi forseta. Formaður Samfylkingarinnar kom og þau eru búin að fara rosalega mikið inná við, svo mikið inná við að þau eru búin að kasta öllum sínum stefnumálum. Ekkert Evrópusamband, engin evra, ekkert slíkt. En hvert er planið? Formaður Samfylkingarinnar vék ekki einu orði að þessu plani. Það sem ég hef bara heyrt er: Hún er bara svolítið að taka yfir, því miður fyrir okkur og sýnir það við þurfum aðeins að standa okkur betur, stefnumál Framsóknarflokksins. Búin að henda öllu út. Ekki er öll vitleysan eins.

Síðan kemur formaður Viðreisnar og heldur hér ansi góða ræðu, enda skörungur. Hvernig ætlar hún að leysa allt? Jú, það er evrópusambandið. Taka upp evruna. Það er ekkert annað, engar lausnir, ekkert að að frétta og hefur ekkert verið að frétta. En mest kom formaður Miðflokksins mér á óvart. Minn gamli félagi. Ég bjóst við að hér myndi hann koma og tala í lausnum. Hvernig ætti að ná tökum á verðbólgunni? Hvernig ætti að skera niður í ríkisrekstri? Ekkert. Ekki neitt. Það var sú tíð þegar við vorum saman í Framsóknarflokknum, þá vorum við að vinna að stórum málum og gekk bara býsna vel. Mér finnst bara dálítið mikilvægt þegar við erum að fara yfir stjórnmálasviðið að við höldum því líka til haga að það er alveg rétt eins og formaður Miðflokksins sagði. Það er stutt í kosningar, en við verðum þá svolítið að vita hvað þessi ágæta stjórnarandstaða ætlar að gera. Samfylkingin ætlar að taka stefnumál Framsóknar, búin að kasta öllu út. Viðreisn, jú það er bara evran, hefur alltaf verið evra. Og Miðflokkurinn? Ég veit ekki hvað ég á að segja meira. En svona er þetta.

En það er svo, virðulegur forseti og góðir landsmenn, að við höfum haft góða sögu að segja á Íslandi undanfarin ár. Hagvöxtur hefur jú verið mikill og landsframleiðslan vaxið verulega. Atvinnustig hefur verið mjög hátt og atvinnulífið er orðið mun fjölbreyttara en það var áður, útflutningur vaxið og gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt. Og það hefur að mörgu leyti gengið vel í íslensku hagkerfi og ég held að landsmenn hafi fundið það. Það breytir hins vegar ekki því að verðbólga er enn of há og vextir eru of háir. Þess vegna erum við að sjálfsögðu, allt sem við erum að gera og leggjum auðvitað allt undir til þess að verðbólga og vextir lækki! Við verðum að ná þessu niður og til þess að það gerist þá verðum við að líta til þess og líta á það hvernig vísitala neysluverðs er samsett þegar við tökum út húsnæðisliðinn þá er hún 3,6% og hún hefur verið að lækka. En eina leiðin og raunhæfa lausnin til þess að við náum verðbólgunni enn frekar niður, það er að auka framboð á húsnæði. Reykjavíkurborg hefur verið að stíga mjög stór skref undanfarið og að tvöfalda lóðaframboðið og það er nauðsynlegt, vegna þess að það þarf að byggja meira. Unga fólkið okkar það verður að geta keypt sér húsnæði á viðráðanlegu verði, það er framtíð landsins.

En kæru landsmenn ég get lofað ykkur því að við í Framsóknarflokknum munum leggja okkur öll fram við þetta verkefni. Verðbólga verður að lækka, vextir verða að lækka til þess að framtíðin verði betri og að okkur líði öllum betur í þessu landi.

 Við í Framsókn viljum svo bara að fólk gangi almennt vel og við höfum trú á samvinnu fólks. Þannig náum við betri árangri sem þjóð.

Virðulegi forseti.

Við höfum haft góða sögu að segja á Íslandi undanfarin ár. Hagvöxtur hefur verið mikill og landsframleiðsla vaxið verulega. Atvinnustig er mjög hátt og atvinnulífið mun fjölbreyttara en áður. Útflutningur vaxið og gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt. Þannig að mörgu leyti hefur gengið vel í íslenskum efnahagsmálum. Landsmenn hafa fundið það.

Hins vegar höfum við verið að glíma verðbólgu mun lengur en við hefðum viljað – sem hefur valdið því að stýrivextir Seðlabankans eru afar háir. Auðvitað reynir hátt vaxtastig á heimili og fyrirtæki, eins og sjá má í vaxandi vanskilum þeirra. Við finnum öll að róðurinn hefur verið að þyngjast en þá er afar brýnt að öll efnahagsstefna stjórnvalda miði að því að verðbólgan lækki.

Við erum farin að sjá einhvern árangur að því og verðbólgan mælist hún 3,6% án húsnæðisliðarins. Því miður hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs knúið verðbólguna áfram að mestu. Lausnin að þessum vanda er að auka framboð af húsnæði. Því, fyrst og síðast, þá vantar húsnæði, þrátt fyrir að þá miklu aukningu sem hefur verið síðustu árum og að ráðist hafi verið í stórar aðgerðir á vegum stjórnvalda.

Hins vegar, þá verðum við gera betur og því er ánægjulegt að stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, hefur skuldbundið sig til að tvöfalda byggingahæfar lóðir frá síðasta kjörtímabili. Önnur sveitarfélög hafa einnig lýst yfir skýrum vilja og getu til að auka framboð af lóðum.

Eina leiðin til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði er á framboðshliðs hans, og það þarf allar heldur á dekk og leita allra leið til að liðka fyrir auknu framboði.

Framtíð landsins treystir á að hægt sé að koma sér upp heimili á viðráðanlegum kjörum!

Virðulegi forseti!

Það er jákvætt að náðst hafist langtímakjarasamningar á vinnumarkaði og frumvarp til fjárlaga miðar því að draga úr þenslu ásamt því að létta undir með fjölskyldufólki. Barnabætur hafa verið auknar verulega og  eru nú skólamáltíðir aðgengilegar öllum börnum þessa lands án kostnaðar. Þessar áherslur skipta máli, þær auka jöfnuð og draga úr áhrifum verðbólgu fyrir þá sem höllustum fæti standa.

Erindi þessarar ríkisstjórnar snýst um að tryggja að verðbólgan lækki. Ríkisstjórnarflokkarnir leggja allt kapp á að mjúk lending náist í hagkerfinu til að heimilin njóti efnahagslegs öryggis. Þetta er brýnasta verkefni vetrarins. 

Góðir landsmenn.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið með þjóðinni í blíðu og stríðu og á mikinn þátt í því, í samvinnu við aðra flokka á Alþingi, að velmegun sé almennt mikil á Íslandi. Við höfum borið gæfu til þess að einblína á hag heimilanna, sem er lykillinn að farsæld hverrar þjóðar.

Við munum á komandi vetri leggja allt á okkur til að verðbólga og vextir lækki, og að kaupmáttur heimilanna aukist að nýju, fyrir ykkur, fólkið í landinu.

Eigið góðar stundir!“