Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Hafnarfirði 9. nóvember 2013, fagnar þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum um allt land. Í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi, nær tvöfaldaði Framsóknarflokkurinn fylgi sitt og náði inn þremur öflugum þingmönnum; hefur Framsóknarflokkurinn aldrei fengið fleiri greidd atkvæði í neinum kosningum en í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum. Árangur náðist vegna sterkra frambjóðenda, einbeitts málflutnings þeirra og mikils sjálfboðaliðastarfs fjölmargra í baklandinu. Fyrir það ber að þakka. Mikilvægt er að hefja sem fyrst undirbúning fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og byggja á þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum. Þingið hvetur því almenna flokksmenn til að huga í tíma að kosningum á vori komanda.
Þingið bindur miklar vonir við nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Afar mikilvæg hagsmunamál s. s. skuldamál heimilanna, efling atvinnulífs og að standa vörð um velferðarkerfið eru stærstu verkefnin framundan. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí í vor eru heimilin undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Þingið fagnar því áherslu stefnuyfirlýsingarinnar um að farið verði í markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Þar er tiltekið að um verði að ræða almennar aðgerðir með áherslu á jafnræði og skilvirkni. Ljóst er að forsendubrestur er verulegur og nauðsynlegt að leiðrétta hann til að koma íslenskum heimilum til hjálpar. Heimilin eru undirstaða samfélagsins og er bætt staða heimilana forsenda þess að hagvöxtur aukist og hjól atvinnulífsins fari að snúast. Þingið telur eðlilegt að þeir sem bjuggu til forsendubrestinn greiði fyrir leiðréttingu á lánum heimilanna.
Þingið fagnar þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í sumar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar er félags- og húsnæðismálaráðherra falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda.
Oft var þörf en nú er brýn nauðsyn á aðgerðum til að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði þannig að öllum verði gert kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið og skapa sér og sínum öruggt heimili. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi núna, sérstaklega þarf að huga að eflingu leigumarkaðarins. Mikilvægt er að tryggja ólík búsetuform þar sem öryggi er lykilatriði.
Aðkoma hagsmunaaðila s.s. sveitarfélaganna skiptir einnig miklu máli. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagana og þar með ráða þau áherslum við uppbyggingu húsnæðis, hvar skuli byggt og hvernig, samsetningu og fjölbreytni íbúðarhúsnæðis.
Þingið telur mikilvægt að standa vörð um velferðar og heilbrigðiskerfið. Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð. Áfram verði lögð áhersla á að bjóða þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.
Breytingar og niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum hafa sett allt heilbrigðiskerfið í uppnám. Því er nauðsynlegt að snúið verði af þeirri braut og leitað allra leiða til að hlúa að og efla heilbrigðisþjónustuna og forvarnir almennt.
Þingið hvetur forsætisráðherra, ráðherra flokksins og þinglið til að hafa forystu um mótun heildarstefnu um bætta lýðheilsu íslensku þjóðarinnar, sbr. stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Þingið fagnar að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009 sé afturkölluð. Einnig telur þingið mikilvægt að almannatryggingarkerfið verði endurskoðað þar sem sérstök áhersla verði lögð á sveigjanleg starfslok og starfsgetumat.
Fjölskyldan í fjölbreyttri mynd er meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að styðja við heimili landsins í þeim erfiðleikum sem á hafa dunið. Gott samspil fjölskyldu og samfélags er forsenda heilbrigðrar samfélagsþróunar.
Þingið áréttar einnig mikilvægi þess að virkja þann kraft sem býr í mannauði Íslendinga. Gamalkunna stef okkar framsóknarmanna vinna-vöxtur-velferð, lýsir í hnotskurn samhengi hlutanna. Án vinnu verður vöxtur takmarkaður og erfitt að standa undir velferð. Þingið hvetur því nýja ríkisstjórn til að leggja allt kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Þingið fagnar því að sú pólitíska óvissa sem einkenndi síðasta kjörtímabil, sérlega undir lokin, er á undanhaldi. Mikilvægt er að skapa ró um þau verkefni sem leysa þarf á næstu misserum og ná sem mestri samvinnu og sátt um þau úrræði sem gripið verður til. Þingið treystir nýrri ríkisstjórn og nýju Alþingi til að vinna í þeim anda.
Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi leggja áherslu á mikilvægi umhverfismála. Ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála þarf að efla og skilgreina þarf betur verkefni þess. Mikilvægt er að ekki sé gengið á hina einstöku náttúru Íslands og að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman. Um þetta er nauðsynlegt að sátt ríki í þjóðfélaginu og því styðja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi heils hugar þá vinnu sem er að fara í gang við endurskoðun náttúruverndarlaga. Nauðsynlegt er að atvinnuuppbygging, þar á meðal í ferðaþjónustu, taki mið af jafnvægi náttúruverndar og náttúrunýtingar.
Íslendingar eru leiðandi í heiminum í nýtingu endurnýjanlegrar orku og til þess að svo verði áfram er mikilvægt að styðja við innlenda tækniþróun og nýsköpun tengdri nýtingu á grænni orku. Íslenskir vísindamenn og fyrirtæki eru í fremstu röð á sviði endurnýjanlegrar orku og vilja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi kappkosta við að svo verði áfram.
Það var mikil afturför í umhverfismálum þegar rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða var dregin í pólitískar deilur af síðustu ríkisstjórn. Þess vegna er mikilvægt að rammaáætlun verði endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa sérfræðinga, út frá því sjónarmiði að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman.
Framsóknarmenn í suðvesturkjördæmi telja það brýnt að draga úr losun allra mengandi efna, þar með talið gróðurhúsalofttegunda. Með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka notkun innlendra og vistvænna orkugjafa, eins og t.d metans, raforku eða metanóls, getum við Íslendingar verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í þessari vegferð. Í þeim tilgangi er mikilvægt að smám saman auka kröfur til innihalds vistvænna orkugjafa í eldsneyti og styðja við innlenda framleiðslu á vistvænum orkugjöfum. Íslendingar eru háðir því að lífríki hafsins sé heilbrigt, og því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að það hljóti skaða af vegna mengandi efna. Einnig er mikilvægt að efla landgræðslu og skógrækt hér á landi.
Þingið telur að hefja beri endurskoðun á lífeyriskerfi landsmanna með það í huga að einfalda það til muna og jafna kjör. Skoða þarf kosti og galla þess að einn sjóður haldi utan um grunnlífeyrisréttindi allra landsmanna. Áfram verði tryggð réttindi til söfnunar séreignarlífeyris.
Lögð verði meiri áhersla á tækni-, iðn- og verkmenntun til að tryggja öflugt atvinnulíf í landinu. Gera verður slíkt nám eftirsóknarverðara en verið hefur með kynningarstarfi í grunnskólum. Fyrirtækjum verði auðveldað að taka nemendur á samning í slíkum greinum.
Þingið telur að endurskoðað verði nám á öllum skólastigum þannig að nemendur komist fyrr í sérnám og út á vinnumarkað.