Aðalfundur Sambands eldri Framsóknarmanna (SEF), haldinn 27. október 2025, samþykkir að skora á þingflokk Framsóknarflokksins að leggja áherslu á málefni eldra fólks.
Fyrst og fremst þess hóps sem er í neðstu tekjutíundum, kjör þeirra eru mjög erfið og leiðrétta þarf hlut þeirra. Um er að ræða einstaklinga sem hafa haft lágar tekjur, hafa lítið greitt í lífeyrissjóð og eru í leiguhúsnæði eða eru mjög skuldsettir.
Við viljum að almenna frítekjumarkið verði hækkað, því það kemur sér vel fyrir þá sem búa við verstu kjörin. Það ætti að fylgja verðlags- og launaþróun. Núverandi ríkisstjórn hefur í hyggju að hækka frítekjumarkið í skrefum, sem mun skila litlu á næstu árum. Aðalfundurinn skorar á þingmenn flokksins að leggja fram fyrirspurn á Alþingi um hverjum hækkun á frítekjumarkinu gagnist best.
Við viljum einnig að ellilífeyrisgreiðslur hækki til samræmis við lægstu laun. Við skorum á þingmenn flokksins að vinna ötullega að því að sjá til þess að svo verði.
SEF leggur áherslu á að komið verði á embætti umboðsmanns aldraðra. Í dag er enginn einn aðili sem annast málefni þessa hóps, sem hægt er að leita til og kerfið er flókið.
Við leggjum jafnframt til að komið verði á góðri samvinnu sveitarfélaga, ríkisins og einkaaðila um uppbyggingu og rekstur dagdvalarúrræða. Það getur létt verulega á þörf fyrir hjúkrunarheimili og fólk gæti dvalið lengur heima. Stuðla þarf að frekari samþættingu hjúkrunarþjónustu og félagsþjónustu í heimahúsum í öllum sveitarfélögum. Þó samþætting sé komin vel á veg víða, er enn verk að vinna.
Við viljum að sálfræði- og geðþjónustu við eldra fólk verði efld. Hraða þarf byggingu nýrrar geðdeildar í Fossvogi, með sérstakri deild fyrir eldra fólk. Einmanaleiki er mikill hjá eldra fólki og getur auðveldlega þróast út í andleg veikindi. Nýtum velferðartæknina til að efla samband við fólk sem býr eitt. Heilsuefling er mikils virði til að efla bæði sál og líkama og þörf er á að efla margs konar hreyfingu fyrir eldra fólk. Þar gerum við miklar kröfur til sveitarfélaganna.
Efla þarf sjálfboðaliðastörf og styðja við þau. Sjálfboðaliðastörf gefa mikið, bæði fyrir þá sem þiggja og þá sem gefa.
Ofbeldi gegn eldra fólki er staðreynd og gegn því verður að berjast af öllum mætti. Ofbeldi getur verið líkamlegt, andlegt og fjárhagslegt. Þetta getur verið falið vandamál, vegna þess að oft er ofbeldið innan fjölskyldunnar.
Við skorum á fólk á framboðslistum sem Framsókn stendur að í næstu sveitarstjórnarkosningum að þess verði gætt að málefni sem snerta eldra fólk verði sett ofarlega á stefnuskrár. Þannig náum við aftur sambandi við okkar eldra fólk sem virðist hafa fjarlægst flokkinn.
Við verðum að sýna viljann í verki.
— Samþykkt á aðalfundi Sambands eldri Framsóknarmanna 27. október 2027.
