Stefán Vagn Stefánsson og Ágúst Bjarni Garðarsson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Stefán Vagn ræddi löggæslumál og stöðu löggæslunnar á Íslandi. Fór hann yfir að mat sitt væri að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. En það veki undrun sína með nýju lögregluráði að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Mikilvægt væri að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.
Ágúst Bjarni sagði það mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt, samvinnuverkefnið milli ríkis og sveitarfélaga og sagðist hann fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Nefndi hann að spennan sem er nú á markaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spennt bogann og hækkandi vaxtastig hafi haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Vill hann hvetja sveitarfélög til að stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi til þess fullt vald.
Stefán Vagn Stefánsson í störfum þingsins:
„Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umtalsefni mínu hér í ræðu í dag eru löggæslumál og staða löggæslunnar á Íslandi. Sá málaflokkur er reyndar efni í umræðu í heilan dag en mig langar að taka eitt mál sérstaklega til umfjöllunar úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma til greina þegar lögreglan er annars vegar.
Sameining lögregluembættanna og aðskilnaður við sýslumenn 2015 var mikið framfaraskref fyrir lögregluna. Ég vil meina að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. Þær breytingar tókust almennt vel þó svo að í slíkum breytingum séu alltaf einhverjir hnökrar sem þarf að laga, en núna árið 2022 eru þeir flestir ef ekki allir í baksýnisspeglinum. Engin stofnun er þó sterkari en starfsfólkið sem í henni starfar. Mikill mannauður er í lögreglunni og það er mikilvægt að hlúa vel að starfsmönnum og tryggja að þeir geti þroskast og eflst í starfi, sér og embættunum til framdráttar. Með nýju lögregluráði var komið á samstarfsvettvangi lögreglustjóra um framtíð og stefnu löggæslunnar til komandi ára. Það er vel. Það er þó eitt sem vekur undrun mína og hefur gert frá stofnun lögregluráðs, það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Það er mikilvægt að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.
Virðulegur forseti. Ég skora á dómsmálaráðherra að gera bragarbót á því og tryggja að rödd lögreglumanna, fagstéttarinnar, fái að heyrast í lögregluráði í framtíðinni og gera breytingar sem til þarf á lögregluráði svo lögreglan muni eiga fulltrúa þar í framtíðinni.“
***
Ágúst Bjarni Garðarsson í störfum þingsins:
„Virðulegur forseti. Ég vil gera stöðuna á húsnæðismarkaði að umtalsefni mínu og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól. Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu sem við öll stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt og samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt. Ég fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Það þarf að stytta alla ferla — ég þekki það bara af eigin raun og ég held að við könnumst öll við það sem hér erum inni — án þess auðvitað að það bitni á vinnubrögðum framkvæmdaraðila. Í þessu samhengi er mikilvægt að treysta þær stofnanir sem mikilvægar eru svo tillögur að uppbyggingu fái sanngjarna og faglega meðferð og afgreiðslu. Við sjáum það öll að það álag sem er nú á markaðnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spenna bogann, ef svo má segja, og hækkandi vaxtastig hefur haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Við sjáum það núna á nýlegri hækkun á miklu fasteignamati og ég held að það sé rétt í því sambandi að hvetja sveitarfélög til að stíga þar inn og — hvað segir maður? — éta þessa hækkun ekki í einum bita heldur stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa til þess fullt vald.“
***